Landsbankinn er orðinn nýr bakhjarl HönnunarMars og verður samstarfsaðili hátíðarinnar næstu þrjú árin. Hátíðin mun fara fram í fimmtánda sinn í maí á næsta ári og hefur fest sig í sessi sem mikilvægt samfélagsverkefni þar sem áhersla er lögð á nýsköpun, sjálfbærni og nýjar lausnir.
Hátíðin er ein af sex borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og dregur að sér fjölbreyttan hóp gesta, almenning jafnt sem innlent og erlent fagfólk.
„Með samstarfinu við HönnunarMars viljum við styðja við íslenska hönnun, arkitektúr og mikilvægt frumkvöðlastarf. Hátíðin hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og laðar til sín mikinn fjölda gesta. Landsbankinn styður við margskonar menningar- og íþróttastarf um allt land og við erum ánægð og stolt af því að vera nú orðin einn af öflugum bakhjörlum HönnunarMars,“ segir Sara Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Samfélags Landsbankans.
Helga Ólafsdóttir, stjórnandi HönnunarMars, fagnar því að fá Landsbankann til liðs við HönnunarMars, enda gríðarlega mikilvægt fyrir hátíðina að vera með góða og öfluga bakhjarla.
„Landsbankinn hefur sýnt það í verki í gegnum tíðina að styðja vel við skapandi greinar og menningarlíf landsins. Saman getum við eflt HönnunarMars sem helsta kynningarafl íslenskrar hönnunar og við hlökkum til samstarfsins framundan.“