Landsbankinn fær bestu einkunn sína hingað til í uppfærðu UFS-áhættumati frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics og er nú í fyrsta sæti af 423 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt í Evrópu. Hann skipaði áður annað sætið.

Stigagjöfin, sem nær upp í 100, lækkaði úr 13,5 í 9,7. Þetta þýðir að Sustainalytics telur hverfandi áhættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta), segir í tilkynningu.

„Við erum gríðarlega stolt af því að komast í lægsta áhættuflokk Sustainalytics,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. „Þessi niðurstaða sýnir að við erum að gera hlutina rétt. Þennan frábæra árangur má þakka mikilli vinnu sem við höfum lagt í sjálfbærni undanfarinn áratug. Meðal nýjustu aðgerða bankans í sjálfbærni er að fá utanaðkomandi endurskoðun á sjálfbærniskýrslu okkar og alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun bankans. Einnig má nefna þætti sem munu skipta enn meira máli í framtíðinni og það er t.d. breytt vinnuumhverfi, fjölbreytni starfa um allt land og að snúa áskorunum upp í tækifæri. Uppfært UFS-áhættumat Sustainalytics, sem metur bankann með hverfandi áhættu, er gott stöðumat um hvar við stöndum og nú er áskorunin að halda áfram okkar góða starfi því við viljum við vera í fremstu röð.“

UFS-áhættumat metur áhættu og áhættustýringu fyrirtækis í tengslum við umhverfismál og félagslega þætti, auk stjórnarhátta sem taldir eru mikilvægir fyrir hvert fyrirtæki út frá undirliggjandi atvinnugreinum. Aðferðafræðin metur umfang mikilvægrar UFS-áhættu sem áhættustýring fyrirtækis nær ekki til. Því meiri áhætta sem fellur utan áhættustýringarramma fyrirtækis, því hærra er áhættumatið.

Sustainalytics hefur nú mælt UFS-áhættu fyrirtækja í tæpa þrjá áratugi og er meðal þeirra alþjóðlegu matsfyrirtækja sem fjárfestar horfa helst til þegar UFS-áhætta fyrirtækja er skoðuð.