Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 nam 7,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 3,6 milljarða króna tap á sama tímabili árið 2020. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,7 prósent á ársgrundvelli, samanborið við -5,9 prósent á sama tímabili 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Gott uppgjör Landsbankans fyrir fyrsta ársfjórðung endurspeglar góðan árangur í öllum rekstri bankans og batnandi efnahagshorfur,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

Hreinar vaxtatekjur námu 8,6 milljörðum króna samanborið við 9,4 milljarða króna á sama tímabili árið á undan, sem er 8,5 prósenta lækkun á milli tímabila.

Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 2,1 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna á sama tímabili árið á undan.

Aukin umsvif í markaðsviðskiptum

„Það ber hæst í þessu uppgjöri að þjónustutekjur hafa aukist og má þar sér í lagi nefna tekjur vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum, ekki síst vegna góðs árangurs bankans í eignastýringu. Góð afkoma er af verðbréfum í eigu bankans og vaxtatekjur eru traustar,“ segir Lilja Björk.

Aðrar rekstrartekjur voru 5,1 milljarð króna en voru neikvæðar um 8 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2020. Breytingin á milli ára skýrist af 2,5 milljarða króna jákvæðri virðisbreytingu útlána, samanborið við virðisrýrnun upp á 5,2 milljarða króna á sama tímabili árið á undan sem rekja má til þeirra óvissu sem ríkti vegna Covid-19-faraldursins, sem þá var nýhafinn.

Jákvæðar virðisbreytingar á fjórðungnum má rekja til þess að efnahagssamdráttur árið 2020 reyndist minni en útlit var fyrir og horfur eru á jákvæðum viðsnúningi á árinu 2021.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,2 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 en var 2,6 prósent á sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum fyrstu þrjá mánuði ársins var 45,8 prósent, samanborið við 72,6 prósent á sama tímabili árið 2020.

Eigið fé Landsbankans var 261,4 milljarðar króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,9 prósent. Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 24. mars 2021, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2020 að fjárhæð 4.489 milljónir króna og hefur arðurinn verið greiddur út.