Gengið hefur verið frá fjárhagslegri endurskipulagningu Keahótela, í gegnum hlutafjáraukningu og með samningum á milli eigenda, lánveitenda og leigusala sem tryggja félaginu stöðugan rekstrargrundvöll vel fram á árið 2022. Landsbankinn fer með þriðjungshlut í félaginu eftir endurskipulagninguna.

„Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Landsbankann, sem er nýr ríflega þriðjungs hluthafi í félaginu, og við leigusala okkar, sem hafa ákveðið að tengja leigukjör félagsins við undirliggjandi rekstrarafkomu hótelanna sem starfrækt eru í viðkomandi fasteignum,“ segir Hugh Short, forstjóri bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins PT Capital, einn af eigendum keðjunnar.

Viðræður um endurskipulagningu reksturs Keahótela, sem er ein stærsta hótelkeðja landsins og starfrækir alls níu hótel, meðal annars hina sögufrægu Hótel Borg við Austurvöll og Hótel Kea á Akureyri, hafa staðið yfir um nokkra hríð.

Niðurstaðan er samkomulag sem bindur saman hagsmuni eigenda og annarra hagsmunaaðila, sem eru annars vegar Landsbankinn og hins vegar ýmis fasteignafélög. Í því felst að hluta skulda verður breytt í hlutafé, núverandi eigendahópur kemur með nýtt fé inn í reksturinn og leigusalar gera samkomulag um veltutengdar leigugreiðslur, sem eru þó með ákveðnu lágmarksgólfi.

Endurskipulagningin er sögð styrkja bæði eiginfjárstöðu og rekstrarumhverfi Keahótela. Hún skapi félaginu góða stöðu á gistimarkaðnum þegar ferðamönnum fer að fjölga á ný, sem vonir standa til að verði strax á komandi vori.

Aðaleigandi hótelkeðjunnar er eignarhaldsfélagið K Acquisitions en að baki því standa bandaríska fasteignafélagið JL Properties með 25 prósenta hlut, bandaríska eignastýringarfélagið Pt Capital Advisors með 50 prósenta hlut og fjárfestingafélagið Tröllahvönn, sem er í eigu Andra Gunnarssonar, Kristjáns M. Grétarssonar, Fannars Ólafssonar og Þórðar Hermanns Kolbeinssonar, með 25 prósenta hlut.

Núverandi eigendur hótelkeðjunnar leggja til fjárhæð sem nemur á þriðja hundrað milljónum og mun eignarhaldsfélagið K Acquisitions halda á tveimur þriðju hlutafjár eftir endurskipulagninguna.

Hugh Short, forstjóri bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins PT Capital, aðaleigandi hótelkeðjunnar.

Hugh Short segir ljóst að COVID hafi haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ferðaþjónustuna, bæði hér á landi og um allan heim. „Fyrir liggur að aðilar samkomulagsins hyggjast takast á við næstu misseri saman eða þar til eðlilegt ástand skapast á ferðamarkaðinum að nýju,“ segir Short.

„Fyrir þá sem munu lifa í gegnum þessa óvenjulegu tíma geta orðið til ýmis ný tækifæri og á þeirri vegferð skiptir miklu að vera með fullfjármagnað félag og reksturinn tryggðan til lengri tíma,“ bætir hann við.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Keahótela fyrir árið 2018 námu eignir keðjunnar tæplega 1,8 milljarði króna og bókfært eigið fé einum milljarði. Félagið hagnaðist um rúmar 484 milljónir króna og EBITDA – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um 574 milljónir króna. Þá námu rekstrartekjurnar liðlega 4 milljörðum króna.