Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Landsbankann í dag til að endurgreiða lántakendum vexti, sem voru ólöglega innheimtir af láni með breytilegum vöxtum.
Landsbankinn var dæmdur til að greiða Berglindi Önnu Zoega Magnúsdóttur kr. 124.229 með dráttarvöxtum frá 8. desember 2021 til greiðsludags. Bankinn var líka dæmdur til að greiða Tómasi Kristjánssyni kr. 108.711 með dráttarvöxtum frá sama tíma til greiðsludags.
Auk þessa var bankanum gert að greiða stefnendum í málinu kr. 750.000 í málskostnað, hvoru.
Í öðru máli sýknaði dómurinn Arion banka af kröfum lántakenda um endurgreiðslu vaxta og virðist byggja dóm sinn á því að skilmálar lánasamninga Arion banka útskýri betur forsendur vaxtabreytinga en skilmálar Landsbankans.
Um er að ræða svokölluð vaxtamál. Fullvíst má telja að báðum málum verði áfrýjað.
Neytendasamtökin stóðu við bakið á málshöfðendum og nutu til þess stuðnings VR.
Fréttin hefur verið uppfærð.