Landsbankinn hefur sett rúmlega tólf prósenta hlut sinn í fjárfestingafélaginu Stoðum í opið söluferli. Bankinn er í dag næst stærsti hluthafi félagsins en bókfært eigið þess nam um 27 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs.

Fyrstu níu mánuði ársins var hagnaður Stoða tæplega tveir milljarðar króna. Fjárfestingaeignir Stoða, sem er stór hluthafi í Símanum, TM og Arion banka, voru þá metnar á 23,5 milljarða og þá átti félagið um 3,6 milljarða í reiðufé.

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að fjárfestar hafi frest til að skila inn tilboði í hlut bankans, í heild eða hluta, til 8. desember næstkomandi.

Langsamlega stærsti hluthafi Stoða er félagið S121 en það er meðal annars í eigu Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Örvars Kjærnested, stjórnarformanns TM.

Auk Landsbankans eru aðrir hluthafar Stoða meðal annars Stefnir, sem á yfir 10 prósenta hlut, og Íslandsbanki sem fer með 2 prósenta hlut í félaginu.