Fimmtán manna hópur landeigenda og starfsmenn Fljótsdalshrepps halda til Spánar í dag til að skoða vindorkugarða í eigu danska fjárfestingarsjóðsins CIP. Viðræður standa yfir um að reisa vindorkugarð á Fljótsdalsheiði. Vindmyllur þar eiga að knýja framleiðslu á vetni og öðru rafeldsneyti í fyrirhuguðum orkugarði á Reyðarfirði.

Gísli Örn Guðmundsson, landeigandi á Þorgerðarstöðum, segir mikilvægt að skoða gaumgæfilega alla anga málsins. Skoða kosti og galla og taka svo yfirvegaða ákvörðun með hagsmuni svæðisins að leiðarljósi.

„Við, eins og aðrir landeigendur á svæðinu, erum alltaf að skoða möguleika á frekari uppbyggingu. Það er ljóst að þetta er mjög ákjósanlegt svæði til orkuframleiðslu og þess vegna höfum við verið í viðræðum við þetta danska fyrirtæki með okkar lögfræðingum.“

Fyrirtækið sem Gísli vísar til er danski fjárfestingarsjóðurinn CIP sem starfar meðal annars fyrir lífeyrissjóði í Danmörku og Þýskalandi.

„Það er engin nýting á þessu landi eins og staðan er í dag. Hálendið sem tilheyrir minni landareign hefur eingöngu verið nýtt til sauðfjárbeitar en það hefur varla verið neitt síðustu áratugi, eða frá árinu 1980 þegar fé var skorið niður,“ segir Gísli.

„Frá mínum bæjardyrum séð er þetta spennandi kostur. Ég hef búið í löndum eins og Danmörku, þar sem nýting vindorkunnar er komin vel á veg. Þar er þessi starfsemi talin nauðsynlegur hluti af raforkukerfinu. Það er ljóst að það þarf aukna orkuframleiðslu í landshlutanum ef áformin á Reyðarfirði eiga að verða að veruleika.“

Gísli heldur út til Zaragoza í dag ásamt öllum þeim sem að verkefninu koma.

„Við erum nokkrir landeigendur hér á svæðinu sem höfum lýst okkur viljuga til viðræðna og að skoða tilboð. En svo er bara verið að ræða kosti og galla. Þess vegna erum við á leiðinni til Spánar meðal annars. Til að sjá þetta fyrir okkur. Svo við getum í framhaldinu tekið upplýsta ákvörðun. Hvort þetta sé eitthvað sem við getum hugsað okkur að fara út í.“

Gísli segist alveg skilja að umræða um nýtingu vindorku á Íslandi sé viðkvæm. Hann segir þó öllu máli skipta að vanda sig og taka upplýstar ákvarðanir með hagsmuni svæðisins að leiðarljósi.

„Ég lít á mig sem mikinn náttúruunnanda. Ég er alinn upp við að fólk byggi lífsafkomu sína á náttúrunni. Auðvitað vill maður ekki gera eitthvað sem raskar þessu mikilvæga jafnvægi. En eins og staðan er í dag þá er þetta svæði eingöngu nýtt af tveimur bændum til sauðfjárbeitar. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem tækifæri til að skapa verðmæti,“ segir Gísli.

„Ef ég get leigt út land án þess að af hljótist mikið rask þá get ég notað afkomuna til að byggja upp neðar í dalnum. Við erum með alls konar hugmyndir um ræktun á svæðinu og þessi starfsemi gæti gert okkur kleift að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd. Við erum nú þegar í skógrækt með tvö hundruð hektara samning við Skógræktina.“

En ríkir eining um þetta mál meðal landeigenda á svæðinu?

„Það er búið að ræða þetta við alla og ég hef ekki orðið var við að einhver sé alfarið á móti þessu. Sumir vilja skoða þetta á seinni stigum en við erum alla vega nokkrir landeigendur sem höfum lýst okkur reiðubúna til viðræðna.

Við vitum að fyrirtækið vill ganga frá samningum um orkuna í Fljótsdalshreppi fyrst. Það er forsendan. Fljótsdalurinn er ákjósanlegur vegna þess að hérna erum við í námunda við línur sem geta flutt orkuna,“ segir Gísli.

Samkvæmt upplýsingum frá Fljótsdalshreppi hafa forsvarsmenn hreppsins hitt fulltrúa CIP á fundum. Hreppurinn á ekkert land undir vindorkuver og því er málið á borði landeigenda eins og Gísla. Það er svo á borði hreppsins að sjá um skipulagsmál í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.

Auk áforma um vindorkugarða á Fljótsdalsheiði er CIP einnig fjárfestirinn á bak við fyrirhugaða framleiðslu á vetni og rafeldsneyti á Reyðarfirði. Verkefnið kallast Orkugarður Austurlands en ljóst er að auka þarf rafmagnsframleiðslu eigi að vera hægt að framleiða rafeldsneyti á Íslandi í stórum stíl. Sveitarfélagið Fjarðabyggð tekur þátt í uppbyggingu orkugarðsins og hafa sveitarstjórnarfulltrúar á svæðinu þrýst á um að vinnu stjórnvalda við regluverk í orkumálum verði lokið sem fyrst