Landaður afli í október 2021 var rúm 119 þúsund tonn sem er 38 prósent meiri afli en í október 2020. Munar þar mestu um 83 prósenta aukningu á landaðri síld sem var 66 þúsund tonn samanborið við 36 þúsund tonn í október 2020. Löndun á botnfiskafla dróst saman um 15 prósent miðað við október fyrra árs og var 34 þúsund tonn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni. Um er að ræða bráðabirgðatölur frá Fiskistofu.

Á tólf mánaða tímabilinu frá nóvember 2020 til október 2021 var heildaraflinn rúmlega 1.072 þúsund tonn sem er 6 prósenta aukning frá sama tímabili ári áður. Á tímabilinu veiddust tæp 471 þúsund tonn af botnfisktegundum og rúm 570 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Landaður afli í október 2021, metinn á föstu verðlagi, lækkar um 1,8 prósent samanborið við október í fyrra. Magnvísitala hefur einnig verið uppfærð fyrir fyrri mánuði ársins.