Þrátt fyrir miklar hækkanir á hlutabréfaverði stendur Arion banki undir markaðsgengi, að mati Jakobsson Capital. Gengi Arion banka hefur hækkað um 76 prósent á hálfu ári. „Sú stefnumarkandi ákvörðun bankans að synda ekki með straumnum heldur að synda á móti straumnum hefur reynst vel. Að verðmeta áhættuna rétt en ekki keppa við alla hina bankana í útlánum á tímum ofgnóttarfjármagns í bankakerfinu,“ segir í verðmati sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Jakobsson Capital verðmetur gengi Arion banka á 130 krónur á hlut en markaðsgengið var 122 krónur við lok markaðar í gær.

Vaxtatekjur jukust um 2,8 prósent á milli ára þrátt fyrir minni efnahagsreikning en þjónustutekjur jukust um 17 prósent. „Mestur vöxtur er í fyrirtækjaráðgjöf en bankinn hefur lagt aukna áherslu á fjárfestingarbankastarfsemi og útgáfu skuldabréfa. Þjónustutekjur vegna endurfjármögnunar- og útgáfu lána hafa aukist mikið og hefur lánavélin varla stoppað. Tekjur af verðbréfum jukust lítillega milli ára eða um 7 prósent. Verðbréf eru að mestu skuldabréf en staða í hlutabréfum er óveruleg og því hefur mikil hækkun á markaði ekki mikil áhrif á afkomuna,“ segir í verðmatinu.