Hópur skuldabréfaeigenda, sem tók þátt í skuldabréfaútboði WOW air haustið 2018 hefur farið fram á að dómkvaddur verði matsmaður til að leggja á það mat hvort flugfélagið var orðið ógjaldfært áður en útboðið fór fram. Algengt er að dómkvaddir matsmenn séu fengnir til þess að meta slíkt áður en riftunarmál eða skaðabótamál eru höfðuð.

„Þrotabú WOW air hafði fengið endurskoðendur til að skoða málið og þeir komust að þeirri niðurstöðu að félagið hefði verið ógjaldfært um sumarið 2018. Þessa niðurstöðu er hins vegar ekki hægt að nota fyrir dómi og þess vegna förum við fram mat óháðra sérfræðinga,“ segir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður hópsins.

Matsbeiðendur eru bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Eaton Vance Management, norska sjóðastýringarfyrirtækið MP Pensjon, Kvika eignastýring, sænski vogunarsjóðurinn Peak AM Alternative Investments, Swedbank Luxem­bourg, Rea ehf., sem er móðurfélag Airport Associates, og GAMMA Capital Management, sem var tekið yfir af Kviku banka árið 2019.

Fjárfestingarfélagið Toluma Kreditt er einnig á meðal matsbeiðenda sem og Johannes Bentorp. Stjórnarformaður Toluma er Morten Wilhelm Wilhelmsen, fyrrverandi forstjóri Wilhelmsen, sem er eitt stærsta skipafélag heims.

„Umbjóðendur okkar halda því fram að stjórnendur WOW hefðu átt að hætta við útboðið og óska strax eftir gjaldþrotaskiptum í stað þess að sækja fé til fjárfesta.“

Matsþolar eru hins vegar Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, ásamt stjórnarmönnunum Liv Bergþórsdóttur, Helgu Hlín Hákonardóttur, Davíð Mássyni og Basil Ben Baldanza.

„Ef félagið var ógjaldfært á þeim tíma sem skuldabréfin voru gefin út myndast skaðabótaskylda stjórnenda félagsins gagnvart kröfuhöfum. Umbjóðendur okkar halda því fram að stjórnendur WOW hefðu átt að hætta við útboðið og óska strax eftir gjaldþrotaskiptum í stað þess að sækja fé til fjárfesta sem auðsjáanlega breytti engu fyrir fjárhag félagsins,“ segir Guðmundur Ingvi. Skaðabótaskyldan muni þá samsvara fjárfestingu skuldabréfaeigendanna í útboðinu.

WOW air gaf út skuldabréf fyrir um 50 milljónir evra í september 2018. Stór hluti þeirrar fjárhæðar sem safnaðist í umræddu útboði fékkst hins vegar með því að ýmsir kröfuhafar WOW air breyttu kröfum sínum í skuldabréf. Þá kom fram í skýrslu Deloitte fyrir þrotabú WOW air, að fjármagninu hefði að mestu verið varið í uppgreiðslu gjaldfallinna krafna, eða rúmum 33 milljónum dala af þeim 50 milljónum sem voru til ráðstöfunar eftir útboðið.

Skuldabréfaeigendurnir sendu kröfubréf á stjórnendur WOW air haustið 2019. Var þess krafist að stjórnendur WOW air gengju til samninga um greiðslu skaðabóta ellegar færi málið fyrir dómstóla.