Ný útlán bankanna, umfram upp- og umframgreiðslur, til atvinnufyrirtækja námu um 13,4 milljörðum króna í síðasta mánuði. Hafa bankarnir ekki lánað jafn mikið í einum mánuði til fyrirtækja frá því að faraldurinn hófst í mars í fyrra.

Þetta má lesa út úr nýjum hagtölum Seðlabankans um íslenska bankakerfið en nokkur viðsnúningur hefur orðið í nýjum útlánum til atvinnulífsins á síðustu fjórum mánuðum. Frá því í desember á liðnu ári nemur útlánaaukningin samanlagt um 30 milljörðum. Til samanburðar voru ný útlán bankanna til atvinnufyrirtækja á öllu árinu 2020 hins vegar aðeins tæplega 8 milljarðar.

Á sama tíma og lán til fyrirtækja eru að taka við sér er ekkert lát á auknum íbúðalánum til heimilanna en þau jukust, umfram upp- og umframgreiðslur, um 28 milljarða í marsmánuði. Frá áramótum nema ný útlán bankanna til heimila um 83 milljörðum króna.