Greinendur telja að olíuverð um þessar mundir sé í hámarki vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þeir spá því að verðið verði lægra í sumar. Ef svo fer væri það lán í óláni því umsvif í flugi eru mun meiri á sumrin en á veturna. Aðstæður geta þó breyst hratt í stríði. Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Fram hefur komið í fréttum að olíuverð hefur ekki verið hærra frá árinu 2014, frá því að innrásin í Úkraínu hófst. Aðspurður segir hann að olía sé umtalsverður kostnaðarliður hjá Play.

Fram að þessu hefur Play ekki keypt olíuvarnir því flugfélagið hefur flogið til þess að gera lítið og miklar sveiflur hafa verið á olíuverði. Viðskiptavinir hafa keypt flugmiða með skömmum fyrirvara í Covid-19 og því hefur verið mögulegt, að sögn Birgis, að láta miðaverð endurspegla að einhverju leyti olíukostnað. Play mun nýta olíuvarnir þegar umsvifin aukast með vorinu og viðskiptavinir eru farnir að kaupa flugmiða með meiri fyrirvara.

„Aðalmálið fyrir okkar rekstur er að eftirspurn haldist,“ segir Birgir. „Fram að þessu hafa átökin ekki haft áhrif á eftirspurn eftir flugferðum hjá okkur.“

Birgir segir að almennt ætti miðaverð að þróast í takt við olíuverð. Markaðsaðstæður alþjóðlega séu þó með þeim hætti að almennt séu flugfélög með mikla afkastagetu því ferðalög hafa dregist saman í Covid-19. Þau reyni að glæða eftirspurnina með lægra verði. „Mögulega munu flugfélögin taka hærra olíuverð á sig,“ segir Birgir.

Hann segir að Play sé ekki með háan fastan kostnað. Flugfélagið sé með þrjár flugvélar í rekstri en í sumar verði þær sex. „Við erum að auka framboð á flugi á hárréttum tíma eftir Covid-19.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Ice­landair Group, segir að stríð í Úkraínu hafi ekki bein áhrif á rekstur flugfélagsins. „Leiðakerfið nær ekki yfir þetta svæði,“ segir hann.

Að hans sögn eru óbeinu áhrifin hærra eldsneytisverð. Aðspurður segir hann eldsneytisvarnirnar á fyrri helmingi ársins vera um 20-30 prósent.

Bogi bætir því við að öll óvissa sé slæm fyrir viðskipti og ferðalög. Það eigi eftir að koma í ljós hver áhrif innrásarinnar verði á bókanir. Fram til þessa hafi hún ekki haft áhrif á bókanir.

Aðspurður segir Bogi að áætlanir Icelandair geri ráð fyrir að flugfélagið verði rekið með hagnaði í ár. Þær áætlanir geri ráð fyrir að eldsneytisverð sé að meðaltali 800 Bandaríkjadalir á tonnið. „Hækkanir umfram það munu hafa áhrif á afkomuna til verri vegar,“ segir hann.

Samkvæmt upplýsingum á vef IATA, alþjóðasambands flugfélaga, kostar tonnið nú um 878 Bandaríkjadali og hefur hækkað um 59 prósent á milli ára.