Tæknisprotinn Laki Power vill umbylta eftirliti með raforkukerfum. Kerfið sem Laki Power hefur þróað gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa eftirlit með raforkukerfinu í rauntíma og stuðlar þannig að auknu rekstraröryggi og nýtingu innviða. Prófanir í Noregi og Tyrklandi hefjast á þessu ári, og áformuð er hlutafjáraukning með aðkomu erlendra fjárfesta svo unnt sé að hefja alþjóðlegt sölustarf.

„Flutnings- og dreifikerfi raforku spanna yfir 70 milljón kílómetra á heimsvísu en rauntímaeftirlit með þessum mikilvægu innviðum er hins vegar takmarkað,“ segir Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri Laka Power, í samtali við Markaðinn.

Rekstrarfyrirtæki flutnings- og dreifikerfa raforku þurfa að fylgjast náið með ástandi háspennulína og raffæða þann eftirlitsbúnað sem notaður er. Þær lausnir sem hafa staðið til boða hingað til eru rafstöðvar, sem er óumhverfisvænn kostur, eða aðrar lausnir sem hafa takmarkað rekstraröryggi. Notkun á slíkum lausnum hefur verið takmörkuð, að sögn Sigurjóns, meðal annars vegna kostnaðar.

Laki Power hefur þróað orkunámstæknina PowerGRAB sem vinnur raforku frá háspennulínum án þess að tengjast þeim beint raffræðilega. Það er gert með því að nýta sterkt rafsegulsvið sem umlykur háspennulínur og skilar lausnin allt að 100 sinnum meira afli en aðrar sambærilegar lausnir á markaði. Þá hefur Laki Power hannað eftirlitskerfi, byggt á tækninni, sem hengt er á háspennulínurnar. Kerfið er með myndavélum, hallanema, hitamyndavél, seltunema, veðurstöð og fjarskiptabúnaði.

Laki 1.jpeg

„Kerfið gerir fyrirtækjum kleift að fylgjast með ástandi háspennulína og haga viðhaldi eftir því. Það hlýst mikill sparnaður af því að vita hvenær þörf er á viðhaldi í stað þess að þurfa að meta þörfina reglulega með dýrari leiðum. Þannig er hægt að lækka rekstrar- og viðhaldskostnað, og stytta viðbragðstíma,“ segir Sigurjón og bætir við að rauntímaeftirlit verði enn mikilvægara eftir því sem hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa eykst.

„Það hlýst mikill sparnaður af því að vita hvenær þörf er á viðhaldi í stað þess að þurfa að meta þörfina reglulega með dýrari leiðum.“

„Endurnýjanlegir orkugjafar setja mikið álag á gamla raforkuinnviði þar sem vindgarðar framleiða orku þegar vindur blæs og sólargarðar þegar sólin skín. Fyrirsjáanleikinn er oft lítill og almennt má segja að það sé krafa um að nýta núverandi innviði betur og auka flutningsgetu kerfisins. Til að gera það þarf rauntímaupplýsingar um ástand kerfisins.“

Útvíkka erlent samstarf

Óskar Valtýsson, sem starfaði áður sem fjarskiptastjóri Landsvirkjunar, stofnaði Laka Power árið 2015 ásamt verkfræðistofunni Mannviti. Næstu þremur árum var varið í þróunarvinnu og prófanir á frumgerðum búnaðarins í raforkukerfi Landsnets.

Laki Power fékk fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði í lok síðasta árs en sjóðurinn er fyrsti fagfjárfestirinn sem kemur að félaginu. Fram að því höfðu eigendur fjármagnað verkefnið auk þess sem fyrirtækið fékk fjármagn frá Tækniþróunarsjóði, Evrópuráðinu og viðskiptahraðlinum Startup Energy Reykjavík.

„Við erum í viðræðum við erlenda fjárfesta og horfum til þess að ráðast bráðlega í hlutafjáraukningu til að hefja alþjóðlegt sölustarf á næsta ári. Við erum nú þegar í samstarfi við rekstrarfyrirtæki raforkukerfisins í Noregi og Tyrklandi og gerum ráð fyrir frekara erlendu samstarfi á næstu misserum,“ segir Sigurjón.

Laki 3.jpg

Flest flutningskerfi raforku eru í umsjón opinberra fyrirtækja og því ekki um hefðbundið sölustarf að ræða, að sögn Sigurjóns.

„Aðdragandinn er kannski aðeins lengri og öðruvísi en ef við værum að selja til einkafyrirtækja. Áherslan á þessu ári er því á að sýna fram á sérstöðu tækninnar og virkni eftirlitskerfisins við mismunandi aðstæður með völdum félögum í Evrópu. Hins vegar er það svo að þessi félög eru í miklum samskiptum og samstarfi og því berast fréttir af nýrri og áhugaverðri tækni fljótt.“

Séríslenskt aðgengi að stórfyrirtæki

Landsnet hefur unnið með Laka Power að vöruþróun og prófunum frá því að fyrirtækið var stofnað. Í dag eru tvær frumgerðir í kerfi Landsnets og eiga félögin í viðræðum um frekari útbreiðslu á tækninýjung Laka Power innan íslenska raforkukerfisins.

„Það hefur verið mjög mikilvægt að vinna að þróun kerfisins með fyrirtæki eins og Landsneti frá upphafi og ég held að það sé séríslenskt fyrirbæri að stórfyrirtæki séu jafnviljug að prófa nýja tækni frá nýsköpunarfyrirtækjum,“ segir Sigurjón.

„Landsnet sér hag sinn í framgangi þessarar tækni vegna þess að það, eins og önnur, glímir við vandamál sem tengjast rekstri og viðhaldi á raforkukerfinu. Það er einnig horft í ríkari mæli til umhverfisvænna lausna sem geta komið í stað eldri útfærslna og bætt nýtingu kerfisins.“