Nýsköpunarfyrirtækið Laki Power hefur lokið nýrri fjármögnun. Brunnur Ventures, sem þegar var hluthafi í fyrirtækinu, leiddi fjármögnunina.

Á meðal nýrra fjárfesta í félaginu eru Silfurberg, fjárfestingarfélag hjónanna Friðriks Steins Kristjánssonar, stofnanda Invent Farma, og Ingibjargar Jónsdóttur; Ómar Benediktsson og SG Consulting, ráðgjafarfyrirtæki Sverris Guðmundssonar. Frá árinu 2018 hefur fyrirtækið aflað sér rúmlega 400 milljóna króna til að þróa tækni sína og undirbúa framleiðslu.

Efla markaðs- og sölustarf

Björgvin Sigurðsson, sem tók við sem forstjóri Laka Power í sumar, segir að fjármunirnir verði til nýttir til að þess að efla markaðs- og sölustarf fyrirtækisins erlendis. Tækjabúnaður félagsins sé í notkun á Íslandi og í Noregi.

Laki Power þróar og framleiðir tæki sem hengd eru á háspennulínur til þess að fylgjast með ástandi þeirra. Tækin mæla veðurfar, hitastig og titring og taka upp myndbönd sem eru send í gegnum farsíma- eða gervihnattakerfi til eftirlitsstöðva. Tækjabúnaðurinn knýr sig sjálfur með því að nýta rafsegulsvið sem umlykur háspennulínurnar til að framleiða rafmagn. Um er að ræða nýja tækni sem framleiðir allt að 100 sinnum meira rafmagn en sambærilegar lausnir.

Óskar Valtýsson, sem starfaði áður sem fjarskiptastjóri Landsvirkjunar, stofnaði Laka Power árið 2015, þróaði tæknina, ásamt verkfræðistofunni Mannviti. Fyrirtækið fékk alþjóðlegt einkaleyfi á tækninni fyrr á þessu ári.

Björgvin segir að það séu mikil tækifæri í sölu á tækninni. „Hún var þróuð hér á landi til að fylgjast með ísingu á háspennulínum. Starfsmenn Landsnets þurfa að fara í eftirlitsferðir langt upp á hálendið til að fylgjast með ísingu og berja klakann af ef þörf er á. Nýja tæknin sparar bæði tíma og kostnað við eftirlitið. Þetta er enn meira vandamál í Noregi því þar er miklu erfiðara að komast að rafmagnslínunum og oft eina leiðin að ferðast með þyrlum með tilheyrandi kostnaði og áhættu.

Sóknarfæri

Núna eru sóknartækifærin okkar að nýta sömu tækni til að fylgjast með öðru en ísingu. Eftirlit með trjágróðri og skógareldum er til dæmis gífurlegt vandamál í heitari löndum og oft útilokað að senda fólk eða þyrlur til eftirlits. Tæknin okkar er sú eina í heiminum sem getur sent myndbönd í beinni útsendingu frá slíkum stöðum,“ segir hann.

Björgvin, sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, kynntist í því starfi erlendum fyrirtækjum sem reka flutningskerfi fyrir rafmagn. „Þetta eru viðskiptavinir Laka Power og þau bera ábyrgð á rafmagnsafhendingu stórþjóða. Þau eru með tugi þúsunda starfsmanna í vinnu og tæknin okkar einfaldar vinnu þessa fólks,“ segir hann.

Að sögn Björgvins hefur COVID-19 gert það að verkum að auðveldara er að koma tækni Laka Power á framfæri erlendis. Áður hafi þurft að ferðast vítt og breitt um heiminn, en nú vinni flestir starfsmenn hugsanlegra viðskiptavina heima hjá sér. Þess vegna sé sjálfsagt mál nú að kynna tæknina á fjarfundum. Það sé mikill kostur þegar búið er á eyju sem sé nokkuð langt frá öðrum mörkuðum.

Einstök tækni á heimsvísu

„Óskari Valtýssyni og fleirum tókst að þróa tækni sem er einstök á heimsvísu og finna fjárfesta hérlendis til að láta hugmyndina verða að veruleika. Margir sérfræðingar töldu útilokað að hægt væri að gera það sem Óskar gerði,“ segir Björgvin.

„Laki Power endurspeglar ágætlega hve langt á veg íslenskt sprota­umhverfi er komið. Fyrsta verkefnið var að fá tæknina til að virka og það gerðum við í góðu samstarfi við Landsnet. Brunnur Ventures fjárfesti í Laka Power árið 2019 til að vinna að einkaleyfinu sem við fengum fyrr á þessu ári. Einkaleyfið er lykillinn að frekari vexti fyrirtækisins inn á alþjóðlega markaði,“ segir hann.