Veitingastaðir sem sætt hafa takmörkunum á opnunartíma vegna Covid-19 geta fengið að hámarki 10-12 milljóna styrk á fjögra mánaða tímabili, samkvæmt frumvarpi sem mælt var fyrir á Alþingi í dag.

Lagt er til að rekstraraðilar veitingastaða sem hafa orðið fyrir minnst 20 prósent tekjufalli í almanaksmánuði frá desember 2021 til mars 2022, vegna takmarkana á opnunartíma, geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu. Úrræðið er ekki bundið við fyrirtæki með langa rekstrarsögu, heldur er gert ráð fyrir að veitingastaðir sem opnuðu í fyrra geti notið úrræðisins - að því gefnu að önnur skilyrði laganna séu uppfyllt, að því er segir í tilkynningu.

Styrkurinn getur numið 90 prósent af rekstrarkostnaði þann almanaksmánuð sem umsókn varðar, en ekki hærri fjárhæð en nemur tekjufalli rekstraraðila viðkomandi mánuð. Styrkurinn getur jafnframt ekki orðið hærri en að 500 þúsund krónur fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu og allt að 2,5 milljónir króna á mánuði ef tekjufall var 20-60 prósent en allt að 600 þúsund krónur fyrir hvert stöðugildi og allt að 3 milljónir króna á mánuði ef tekjufall var meira en 60 prósent.

Samanlagðir styrkir til einstakra rekstraraðila vegna tímabilsins alls geta því að hámarki orðið 10 til 12 milljónir króna.

Alls hafa fyrirtæki í greininni fengið um 11 milljarða króna í beina styrki frá hinu opinbera vegna faraldursins, segir í tilkynningunni.

Samkvæmt frumvarpinu þurfa umsækjendur að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksumsvif, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og um að vera ekki í gjaldþrotameðferð.

Líkt og gildir um lokunar-, tekjufalls- og viðspyrnustyrki er lagt til að bæði umsóknar- og ákvörðunarferli vegna styrkjanna verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum.