Stærstu hluthafar Swedbank hafa lagt til að Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, verði kjörinn stjórnarformaður sænska bankans á hluthafafundi í næsta mánuði. Tveir af æðstu stjórnendum bankans hafa stigið til hliðar eftir að bankinn var sakaður um að hafa tekið þátt í umfangsmiklu peningaþvætti í Eystrasaltsríkjunum.

Tilnefningarnefnd Swedbank, sem er elsti banki Svíþjóðar, hefur krafist þess að boðað verði til hluthafafundar í næsta mánuði - í síðasta lagi 21. júní - þar sem ný stjórn verði kjörin yfir bankanum.

Auk Perssons, sem gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1996 til 2006, leggur tilnefningarnefndin til að Bo Magnusson, fyrrverandi bankamaður hjá keppinautinum SEB, og Josefin Lindstrand, lögfræðingur sem sérhæfir sig í vörnum gegn peningaþvætti, verði kjörin í stjórn Swedbank.

Stjórnarformaðurinn Lars Idermark og bankastjórinn Birgitte Bonnesen stigu fyrr á árinu til hliðar eftir að fjármálaeftirlit Svíþjóðar og Eistlands, auk bandaríska yfirvalda, hóf að rannsaka bankann. Samkvæmt innri skýrslu sem sænski bankinn lét gera flæddu 135 milljarðar evra, sem jafngildir meira en 18.400 milljörðum króna, í gegnum útibú bankans í Eistlandi í yfir áratug en talið er að fjármunirnir séu hluti af umfangsmiklu peningaþvætti.

„Swedbank glímir við margar áskoranir. Tilnefningarnefndin er sannfærð um að ný stjórn geti stuðlað að því að bankinn endurheimti traust,“ segir Lennart Haglund, formaður tilnefningarnefndarinnar, en í henni sitja fulltrúar fimm stærstu hluthafar bankans, eftir því sem fram kemur í frétt Financial Times.