Hagfellt skattaumhverfi á Kanaríeyjum býr til frjóan jarðveg fyrir samstarfsverkefni um stafræna þróun á milli fyrirtækja þar í landi og íslenskra fyrirtækja og unnið verður markvisst að því að koma slíkum samstarfsverkefnum á fót. Þetta segir Javier Betancor, ræðismaður Íslands á Kanaríeyjum

Sendinefnd frá Kanaríeyjum var nýlega stödd á Íslandi á vegum Spánsk–íslenska viðskiptaráðsins. Sendinefndin samanstendur af meðlimum viðskiptaráðs Kanaríeyja, ráðherrum úr heimastjórn eyjanna og forsvarsfólki ýmissa fyrirtækja sem hafa höfuðstöðvar á Kanaríeyjum.

Í spænsku sendinefndinni vory m.a. José Alba, yfirmaður markaðsmála hjá Lopesan hótelkeðjunni, José Luis García, forstjóri Atlantic Singular Aircraft SL sem er eitt stærsta drónafyrirtæki Evrópu, og Esther Haro, sölustjóri Meeting Point Hotel Group.

Tilgangur komu þessarar sendinefndar var að læra af íslenskum fyrirtækjum stafræna þróun og viðskipti, þar sem Ísland telst framarlega á því sviði, og efla og kanna grunn til samstarfs á milli landanna.

„Kanaríeyjar munu á næsta ári fá töluverða fjárhæð frá Evrópusambandinu sem á meðal annars að gagnast til stafrænnar þróunar fyrirtækja. Því miður er stafræn þróun ekki komin eins langt á veg og á Íslandi og þess vegna er stefnt að því að skipuleggja samstarfsverkefni (e. joint venture) á milli fyrirtækja frá Kanaríeyjum annars vegar og á Íslandi hins vegar,“ segir Javier.

Skattaumhverfið á Kanaríeyjum er með lægsta fyrirtækjaskattinn innan Evrópusambandsins en hann er aðeins um 4 prósent.

„Þetta gæti verið mjög ábatasamt fyrir íslenskt fyrirtæki sem eru í sókn á alþjóðavettvangi og fyrirtæki á Kanaríeyjum sem setja púður í stafræna þróun,“ segir Javier.

„Kanaríeyjar bjóða upp á frábært umhverfi fyrir tæknifyrirtæki, bæði hvað varðar skatta og veðurfar.“

Þá eru einnig uppi hugmyndir um að efla samgöngu enn frekar á milli landanna tveggja.

„Íslendingar eru mikilvægir ferðamenn fyrir Kanaríeyjar vegna þess að þeir eyða meiru en margir aðrir hópar. Jafnframt hefur færst í aukana að íbúar Kanaríeyja leggi leið sína til Íslands. Ríkisstjórn Kanaríeyja hefur nú boðið Icelandair sérstakar ívilnanir til þess að fjölga flugferðum.“