Skráning Síldarvinnslunnar á aðallista Nasdaq Iceland mun líklegast fela í sér sölu á eignarhlut að markaðsvirði að minnsta kosti 20 til 23 milljarða króna, ef litið er til rekstrar- og efnahagsstærða félagsins. Bókfært virði aflaheimilda Síldarvinnslunnar var um 30 milljarðar króna við árslok 2019, en upplausnarvirði þeirra er töluvert hærra.

Aflaheimildir Síldarvinnslunnar eru fyrst og fremst í uppsjávartegundum við árslok 2019, þó svo að samsetning þeirra hafi breyst nokkuð síðan þá í gegnum yfirtökur á öðrum félögum. Sé hins vegar miðað við það sem fram kemur í yfirliti aflaheimilda ársreikningsins frá árinu 2019 má áætla að verðmæti aflaheimilda sé tæplega 80 milljarðar, að því er heimildir Markaðarins herma. Upplausnarvirði aflaheimilda segir hins vegar bara hálfa söguna.

Nærtækasta samanburðarfélagið við Síldarvinnsluna til þess að reyna að áætla verðmæti hlutafjár er Brim, eina skráða sjávarútvegsfélagið á markaði. Hlutfall rekstrarvirðis og hagnaðar Brims á árinu 2019 fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var um 11,5. Nýjasti, aðgengilegi ársreikningur Síldarvinnslunnar er frá árinu 2019 en þá var EBITDA hagnaður félagsins um 8,23 milljarðar króna. Sé EBITDA hagnaður ársins 2019 margfaldaður með tölunni 11,5 að frádregnum nettóskuldum Síldarvinnslunnar (sem voru rétt ríflega einn milljarður króna undir árslok 2019) fæst út talan 94,6 milljarðar króna.

Því má ætla að verðmæti alls hlutafjár Síldarvinnslunnar liggi á bilinu 80 til 95 milljarðar króna, miðað við forsendur ársreiknings 2019 og þeirra verðmargfaldara sem lesa má úr markaðsgögnum þess tíma. Samkvæmt reglum Nasdaq Iceland þarf að skrá að minnsta kosti fjórðung hlutafjár félaga á aðallista kauphallarinnar, sem þýðir að á bilinu 20 til 23 milljarðar verða boðnir til sölu miðað við 25 prósenta hlut.

Þó verður að hafa í huga að hlutabréfaverð hefur hækkað almennt á tímabilinu. Gengi bréfa Brims hefur þannig hækkað um tæplega 30 prósent frá árslokum 2019 og verðmat á hlutafé Síldarvinnslunnar á forsendum ársloka 2019 því með varfærnasta móti.  

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hversu stór hluti yrði skráður. Heimildir Markaðarins herma að stórir hluthafar í félaginu muni selja frá sér. Félögin Samherji og eignarhaldsfélagið Kjálkanes, sem fara samanlagt með tæplega 79 prósenta hlut í félaginu, eru þannig bæði sögð ætla að selja frá sér hlut í útboðinu. Miðað við sterka fjárhagslega stöðu Síldarvinnslunnar má vart sjá forsendur þess að auka hlutafé.


Minna fyrir makrílinn


Atburði ársins 2020 verður hins vegar að hafa í huga þó að afkoma ársins 2019 sé nýjustu opinberu gögn sem hægt er að styðjast við. Síldarvinnslan gekk frá kaupum á útgerðarfélaginu Bergi í gegnum dótturfélag sitt Berg-Hugin í október síðastliðnum, en aflaverðmæti Síldarvinnslunnar og dótturfélaga er núna um það bil jafnt skipt milli uppsjávar- og botnfisktegunda.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Afkoma makrílveiða var síðan eflaust lakari á árinu 2020 en 2019. Þrátt fyrir að olíuverð hafi lækkað skarpt eftir að heimsfaraldurinn gerði vart við sig, þurfti að sækja makrílinn töluvert lengra út á haf en síðastliðin ár, sem eykur kostnað við veiðar. Löng heimsigling verkar að sama skapi til lækkunar á aflaverðmæti, það er ef ætlunin er að vinna makrílinn til manneldis. Heimsmarkaðsverð á makríl var einnig heilt yfir lægra síðasta haust en árin 2018 og 2019. Göngumynstur makrílsins virðist einnig vera að breytast töluvert, en sækja þurfti lungann úr afla þessarar vertíðar í Síldarsmuguna­ djúpt suðaustur af landinu. Það gildir svo um makr­ílinn eins og flest annað í sjávarútvegi: Mikil óvissa ríkir um hvernig næsta haust verður, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór á síðustu vertíð.


Útflutningur á frystum sjávarafurðum jókst mjög eftir því sem heimsfaraldurinn herti tökin á heimsbyggðinni, á kostnað ferskra. Það endurspeglast í lægra aflaverðmæti, einkum og sér í lagi á bolfiski.

Sé litið til þess sem er breytt á yfirstandandi ári er skemmst að minnast fyrstu loðnuvertíðarinnar í þrjú ár. Talið er að útflutningsverðmæti loðnu á þessu ári verði allt að 10 milljarðar króna, en Síldarvinnslan heldur á tæplega fimmtungi aflaheimilda loðnu á Íslandi. Eftir algjöran loðnubrest undanfarinna tveggja ára mun vertíðarinnar nú gæta í afkomu Síldarvinnslunnar á yfirstandandi ári.

Skráning á markað samhliða Íslandsbankaútboði


Að því er stefnt að skrá Síldarvinnsluna á markað á fyrri helmingi þessa árs, líkt og komið hefur fram í tilkynningum frá fyrirtækinu. Tímalína skráningar Íslandsbanka er nokkurn veginn hin sama, en stefnt er að skráningu á 25 til 35 prósenta hlut í bankanum í maí eða júní á þessu ári.

Það er mjög góður tími til að skrá félög á markað núna, enda eru vextir lágir og hlutabréfaverð hátt um þessar mundir.

Nýtt framboð hlutabréfa vegna skráningar Íslandsbanka má þannig áætla á bilinu 35 til 40 milljarða króna. Að fjórðungshlut í Síldarvinnslunni viðbættum og að því gefnu að hann sé um 20 milljarða virði, er því um að ræða um það bil 60 milljarða af nýju framboði hlutabréfa fyrir fjárfesta á fyrri helmingi ársins.

Snorri Jakobsson, hlutabréfagreinandi hjá Jakobson Capital, telur að markaðurinn gæti átt erfitt með að kyngja öllu þessu nýja framboði á sama tíma. „Það er mjög góður tími til að skrá félög á markað núna, enda eru vextir lágir og hlutabréfaverð hátt um þessar mundir.

Markaðsaðilar þekkja Íslandsbanka hins vegar betur en Síldarvinnsluna. Það er þó ekki endilega víst að það vinni gegn Síldarvinnslunni,“ segir Snorri.

Ekkert útgerðarfyrirtæki var skráð í kauphöllina frá afskráningu Granda árið 2006 og fram til 2014.

Ódýrt lánsfé jók misvægi rekstrarvirðis og upplausnarvirðis


Þegar mest var voru alls 19 sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markað á Íslandi, en upp úr aldamótum fór að bera á afskráningu þeirra. Ekkert útgerðarfyrirtæki var skráð í kauphöllina frá afskráningu Granda árið 2006 og fram til 2014, þegar sama fyrirtæki var skráð aftur. Fyrir tæpum 20 árum síðan var almennt litið svo á að lág velta með hlutabréf sjávarútvegsfyrirtækja hefði kerfisbundið vanmetið raunverulegt verðmæti þeirra á markaði. Verðmæti aflaheimilda væri bókfært á aðeins broti af raunverulegu verðmæti þeirra og endurmetið eigið fé þeirra því miklu hærra en verð á skráðum markaði hafi bent til.

Einnig var bent á að fjárfestar hafi haft þá hugmynd að vaxtartækifæri í sjávarútvegi væru takmörkuð, þar sem veiðistofnar við Íslandsstrendur væru meira og minna fullnýttir og lög um þak á eignarhaldi aflaheimilda takmarkaði möguleika til hagræðingar. Óvissa um kvótakerfið, sem hafði á þeim tíma aðeins verið við lýði í um tvo áratugi, var einnig talið draga úr áhuga fjárfesta á hlutabréfum í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Einhver af þessum rökum kunna að halda enn þann dag í dag. Stærsta, einstaka ástæðan fyrir afskráningu sjávarútvegsfyrirtækja er þó eflaust hið mikla aðgengi að ódýru lánsfé sem kom til sögunnar upp úr aldamótum. Líkt og nánast allir aðrir eignaflokkar þá hækkaði verð á aflaheimildum mjög mikið á þeim tíma. Það hafði þær afleiðingar að mismunur á upplausnarvirði og rekstrarvirði sjávarútvegsfyrirtækja jókst enn frekar, sem skapaði enn meiri hvata fyrir kjölfestueigendur sjávarútvegsfyrirtækja að gera yfirtökutilboð og taka af markaði. Verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja hefur síðan aukist mikið síðan á fyrsta áratug þessarar aldar frá því að afskráningaaldan reið yfir, einkum vegna aukinnar tæknivæðingar og bættrar framleiðni.

Í bankahruninu 2008 kom svo vel í ljós hversu uppblásið verð á aflaheimildum var orðið, þegar það hrundi úr 4.000 þúsund krónum fyrir kílóið í ríflega 1.700 krónur þegar það fór lægst. Um þessar mundir er verðið á þorskkvóta um 3.700 krónur – enn þá nokkuð lægra en þegar það náði sínum hæstu hæðum í aðdraganda haustsins 2008.

Uppfært 10:57: Verð á aflaheimilda í þorski náði hæst í 4.000 krónur árið 2008 en ekki 5.000 krónur. Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt því.