„Það var mikilvægur skóli að reka tölvufyrirtæki á þessu svokallaða dotcom-tímabili þegar allt snérist um að vera með sem flesta starfsmenn og afkoma skipti engu. Svo breyttust hlutirnir allt í einu þegar dotcom-blaðran sprakk og öll þessi nýju fyrirtæki áttu að verða arðbær á einni nóttu sem var auðvitað mjög erfitt," segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis í ýtarlegu viðtali í Markaðinum.

Guðmundur hóf feril sinn sem frumkvöðull í Danmörku á meðan hann var þar í námi og að námi loknu. Hann rak þar tölvufyrirtæki um skeið sem sérhæfði sig í lausnum fyrir rannsóknardeildir fjárfestingabanka.

„Ég lærði mikið á þessari eldskírn og held að þessi reynsla gagnist mér afskaplega vel í dag í mörgum ákvarðanatökum. Þegar ævintýrinu í Danmörku lauk hóf ég störf hjá Össuri þar sem ég hafði starfað nokkrum árum áður í sumarvinnu. Hjá Össuri var umhverfið allt annað. Mikil festa í öllum rekstri en á sama tíma mikil áhersla á vöruþróun og nýsköpun.“

Guðmundur er efnafræðingur og rekstrarverkfræðingur að mennt en áhuginn á meðhöndlun sára kviknaði við störf hjá Össuri. Þar áttaði hann sig á mikilvægi þess að koma í veg fyrir aflimanir.

„Aflimun er oft sýnd sem afleiðing af slysi eða hernaði, en raunin er sú að hana má í langflestum tilvikum rekja til sykursýki. Þegar fólk fær sykursýki þá deyja háræðarnar í fótunum og í kjölfarið deyja taugarnar og öll tilfinning hverfur úr fótunum. Þegar þessir sjúklingarnir fá svo skrámu á fæturna, til dæmis eftir að hafa verið með steinvölu í skónum, getur myndast sár. Í sumum tilfellum stækkar sárið og stækkar og verður lífshættulegt ef það nær inn að beini,“ segir Guðmundur og nefnir að um 1,2 milljónir Bandaríkjamanna sem séu nú á lífi hafi verið aflimaðir og margir hverjir orðið viðskiptavinir Össurar. Lífslíkur þeirra sem eru aflimaðir eru slæmar eða svipaðar og hjá þeim sem glíma við lungnakrabbamein.

„Þeir sem eru aflimaðir eru oft mjög veikir fyrir, og við aflimunina versnar ástandið enn frekar. Sjúklingarnir festast inni á heimilum sínum og sjúkrastofnunum, hætta að taka þátt í samfélaginu og einangrast.“

„Þetta er mjög alvarlegt vandamál. Í Bandaríkjunum í dag eru 30 milljónir manna með sykursýki, eða einn af hverjum ellefu. Gert er ráð fyrir að árið 2050 verði hlutfallið komið upp í einn af hverjum þremur fullorðnum. Við sjáum sömu þróun í Evrópu og Asíu þó að hún sé aðeins seinna á ferðinni en í Bandaríkjunum. Þetta er stórt vandamál og mikill harmleikur fyrir fjölskyldur sjúklinganna. Þeir sem eru aflimaðir eru oft mjög veikir fyrir, og við aflimunina versnar ástandið enn frekar. Sjúklingarnir festast inni á heimilum sínum og sjúkrastofnunum, hætta að taka þátt í samfélaginu og einangrast.“

Eftir að hafa starfað hjá Össuri réð Guðmundur sig til sárafyrirtækis á Nýja-Sjálandi en sneri síðan heim til Íslands árið 2007 og starfaði um skeið sem rekstrarráðgjafi. Hann saknaði hins vegar lækningavörugeirans og leitaði kerfisbundið að nýjum hugmyndum til að hrinda í framkvæmd.

„Ég vann sem strákur í fiski þar sem maður var að handleika roð og í störfum mínum hjá Össuri og nýsjálenska fyrirtækinu hafði ég kynnst notkun á líkhúð í sárameðhöndlun. Þegar ég kom heim frá Nýja-Sjálandi var ég kerfisbundið að leita að tækifærum til nýsköpunar og tengi þá þetta tvennt saman og ég átta mig á því að það er alveg eins að snerta þorskroð og líkhúð. Hvort tveggja er með sama teygjanleika og sömu þykkt.

Seinna kom svo í ljós að efnasamsetning mannshúðar og roðs er því sem næst eins og er meginmunurinn sá, að þorskroð er þakið hreistri, en mannshúð hárum. Ýmis vandamál hefðu hins vegar getað komið upp við notkun roðsins, eins og sjálfsónæmi. Það er ekki bara áferðin á efninu sem skiptir máli heldur hvaða áhrif efnið hefur á opið blæðandi sár,“ segir Guðmundur.