Gengi hlutabréfa í Arion banka lækkaði um ríflega 1,2 prósent í 330 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag eftir að bankinn sendi frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar fór upp um 1,3 prósent í viðskiptum dagsins.

Gengi bréfa í Arion banka stóð í 79,5 krónum á hlut þegar markaðir lokuðu í dag en það fór úr 80,5 krónum á hlut niður í 78,1 krónu á hlut í fyrstu viðskiptum dagsins í morgun. Lækkunin gekk hins vegar að hluta til baka eftir því sem leið á daginn. Hlutabréfaverð bankans hefur hækkað um liðlega átta prósent á undanförnum þremur mánuðum.

Í afkomuviðvörun Arion banka í gærkvöldi kom fram að neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu bankans á fjórða fjórðungi síðasta árs yrðu um átta milljarðar króna. Þar af þyrfti að færa niður óefnislegar eignir dótturfélagsins Valitors um fjóra milljarða króna og eignir Stakksbergs, eignarhaldsfélags um sílikonverksmiðju í Helguvík, um 2,3 milljarða króna.

Í tilkynningunni var þó tekið fram að áhrifin á eiginfjárhlutföll bankans væru óveruleg. Hlutföllin væru áfram sterk.

Afkoma bankans á síðasta ári, að teknu tilliti til áhrifa af aflagðri starfsemi og eigna til sölu, er um einn milljarður króna.

Öll félög á aðallista Kauphallarinnar, að undanskildum Arion banka, Eimskip og Sýn, hækkuðu í verði í viðskiptum dagsins eftir miklar lækkanir í gær. Mesta hækkunin var á bréfum Icelandair Group en þau fóru upp um tæplega þrjú prósent í verði í um 102 milljóna króna viðskiptum. Þá hækkaði Festi um 2,8 prósent og Marel og Brim um 2,4 prósent.