Englandsbanki lækkaði stýrivexti sína í 0,1 prósent fyrr í dag og sagðist ætla að auka skuldabréfakaup sín um allt að tvö hundruð milljarða punda. Þetta er önnur vaxtalækkunin á ríflega viku sem bankinn grípur til í því skyni að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónaveirunnar.

Peningastefnunefnd Englands samþykkti einróma að lækka stýrivextina úr 0,25 prósentum í 0,1 prósent og auka jafnframt skuldabréfakaup bankans á markaði þannig að þau nemi samtals um 645 milljörðum punda.

Í frétt Financial Times er tekið fram að bankinn muni einkum kaupa bresk ríkisskuldabréf.

Karen Ward, sérfræðingur hjá eignastýringararmi JP Morgan, segir í samtali við blaðið að kaup seðlabankans á ríkisskuldum muni hjálpa til við að fjármagna aðgerðir breskra yfirvalda til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar.

„Stuðningurinn við hagkerfið og heilbrigðiskerfið mun þarfnast aukinnar lántöku af hálfu ríkisins. Vilji seðlabankans til þess að kaupa ríkisskuldir mun tryggja að markaðurinn ráði vel við þessa auknu útgáfu ríkisskuldabréfa,“ nefnir hún.

Gengi breska pundsins, sem hefur veikst umtalsvert á síðustu dögum, einkum gagnvart Bandaríkjadalnum, styrktist um meira en eitt prósent í kjölfar tilkynningar Englandsbanka. Þá hækkuðu bresk ríkisskuldabréf jafnframt í verði.