Evrópsk hlutabréf lækkuðu eftir ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að leggja nýja tolla á innflutning frá Kína.

FTSE 100 og aðrar leiðandi vísitölur í Frakklandi og Þýskalandi lækkuðu um meira en 2 prósent að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. Hlutabréfamarkaðir í Asíu lækkuðu einnig í kjölfar frétta af ákvörðun forsetans. Nikkei lækkaði um 2,1 prósent og Hang Seng í Hong Kong um 2,3 prósent.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði að stjórnvöld myndu svara þessu útspili Bandaríkjanna. Hún fór ekki nánar í það hvað fælist í viðbrögðum stjórnvalda en fyrr á árinu gáfu gáfu þau til kynna að dregið yrði úr útflutningi á fágætum jarðmálmum til Bandaríkjanna sem eru nauðsynlegir mörgum stórum bandarískum framleiðslufyrirtækjum.

Tollarnir, sem nema 10 prósentum og taka gildi 1. september, ná yfir nær allan innflutning frá Kína til Bandaríkjanna.