Hlutabréf lækkuðu nokkuð í verði á Asíumörkuðum í morgun vegna áhyggna fjárfesta af hækkandi stýrivöxtum og viðskiptadeilum Bandaríkjanna og Kína.

Japanska hlutabréfavísitalan Topix lækkaði sem dæmi um 1,6 prósent og hefur ekki verið í lægri gildum í sjö mánuði. Hlutabréf í fjarskiptafélögum féllu hvað mest í verði eða að meðaltali um 3 prósent en bréf japanskra fjármálafyrirtækja lækkuðu um 1,35 prósent í verði.

Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,3 prósent og CSI 300 vísitalan í Kína fór niður um 1,4 prósent í viðskiptum dagsins, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Verðfallið í Asíu virðist ekki hafa smitast til Evrópu en evrópskir hlutabréfamarkaðir stóðu nokkurn veginn í stað þegar þeir opnuðu í morgun.

Talsverðar lækkanir urðu á hlutabréfamörkuðum víða um heim í síðustu viku, fyrst og fremst vegna áhyggna fjárfesta af hækkun stýrivaxta og viðskiptastríði bandarískra og kínverskra stjórnvalda. Cui Tiankai, sendiherra Bandaríkjanna í Kína, sagði í samtali við Fox News í gærkvöldi að yfirvöld í Kína hefðu ekki viljað taka þátt í viðskiptastríði gegn Bandaríkjunum en þyrftu hins vegar að „bregðast við og og verja hagsmuni okkar“.