Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25%, úr 4% í 3,75%. Í síðasta mánuði lækkaði peningastefnunefndin stýrivextina um 0,5%. Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar á vef Seðlabankans.
Í yfirlýsingunni segir að nýjustu upplýsingar um þróun efnahagsmála breyti ekki því mati á efnahagshorfum sem lágu fyrir á síðasta fundi nefndarinnar. Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi hefur verið í takt við maíspá bankans og þá er áfram gert ráð fyrir samdrætti í þjóðarbúskapnum sem mun birtast frekar á komandi mánuðum.
Þá segir að horft sé á að samdráttur í ferðaþjónustu verði enn meiri en gert var ráð fyrir en á móti virðist kröftug einkaneysla og undirliggjandi þróttur innlendrar eftirspurnar hafi verið meiri en talið var.
Verðbólgan hefur einnig verið í samræmi við síðustu spá Seðlabankans en samkvæmt spánni hefur hún nú náð hámarki og mun hjaðna í átt að markmiði þegar líður á árið. Í tilkynningunni segir þó að frekari lækkun á gengi krónunnar gæti sett strik í þann reikning. Verðbólguvæntingar hafa þá lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar og taumhald peningastefnunnar því aukist á ný.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og nefndarmaður í peningastefnunefnd, munu gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar á kynningarfundi í Seðlabankanum klukkan 10 í dag.