Endanlegt kaupverð fasteignafélagsins Regins á öllu hlutafé tveggja dótturfélaga FAST-1, sem eiga meðal annars turninn við Höfðatorg, verður um 480 milljónum króna lægra en miðað var við þegar félögin skrifuðu undir samning um einkaviðræður og helstu skilmála um kaupin í nóvember í fyrra.

Félögin skrifuðu undir kaupsamning í gær - að lokinni áreiðanaleikakönnun - en samkvæmt samningnum er kaupverðið 22.717 milljónir króna. Til samanburðar var áður miðað við að heildarvirði dótturfélaganna tveggja, HTO og FAST-2, væri 23.200 milljónir.

Reginn hyggst fjármagna kaupin með útgáfu á nýju hlutafé í félaginu að nafnverði 220.532.319 á genginu 24,53 krónur á hlut, lánsfé og yfirtöku áhvílandi skulda.

Stærstu eignir HTO og FAST-2 eru Katrínartún 2 (turninn við Höfðatorga) og Borgartún 8-16. Aðrar eignir eru Skúlagata 21, Vegmúli 3 og Skútuvogur 1. Samtals telur fasteignasafnið 44 þúsund fermetra ásamt bílakjallara með yfir 600 bílastæðum. Eignirnar eru í 98 prósenta útleigu til traustra leigutaka, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar, en 57 prósent af leigutekjum félaganna koma frá hinu opinbera. Meðal stærstu leigutaka eru Reykjavíkurborg, Fjársýsla Ríkisins, Reiknistofa Bankanna og Fjármálaeftirlitið.

Með viðskiptunum verður eignasafn Regins 369 þúsund fermetrar og telur félagið kaupin falla vel að fjárfestingastefnu þess sem felur meðal annars í sér að auka hlut félagsins í hágæða atvinnuhúsnæði á sterkum markaðssvæðum.

Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins - rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - hækki um 1.240 milljónir króna á ársgrundvelli og að arðsemi kaupanna verði um 5,5 prósent.

Viðskiptin eru meðal annars háð skilyrðum um samþykki hluthafafundar FAST-1 og Samkeppniseftirlitsins og endanlegri fjármögnun kaupanda.

Nýr eignarhlutur í Regin, ef af verður, yrði um 12 prósent sem afhendist seljanda, FAST-1.. Á meðal stærstu hluthafa FAST-1 eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með tæplega 20 prósenta hlut hver, Festa lífeyrissjóður með tæplega 10 prósenta hlut og Almenni lífeyrissjóðurinn með tæplega 7 prósent.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka veitti Regin ráðgjöf í viðskiptunum en fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Landslög voru ráðgjafar FAST-1.