Bónus var oftast með lægsta verðið á mat­vöru sam­kvæmt nýrri verð­lags­eftir­lits­könnun ASÍ. Verð­lags­eftir­lit ASÍ gerði verð­könnun á mat­vöru og hrein­lætis- og snyrti­vöru þann 8. septem­ber síðast­liðinn.

Sam­kvæmt niður­stöðum könnunarinnar var Bónus með lægsta verðið í 94 til­fellum en Krónan næst oftast, eða í tólf til­vikum.

Iceland var oftast með hæsta verðið, í 44 til­vikum en Hag­kaup næst oftast eða 39 sinnum, Fjarðar­kaup 26 sinnum og Kjör­búðin í 24 til­vikum.

Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á mörgum vörum í könnuninni. Al­gengast var að munur á hæsta og lægsta verði á mat­vöru og öðrum heimilis­vörum væri undir 20 prósent eða í 48 til­fellum af 135.

Í 32 til­vikum var 20 til 40 prósenta munur á hæsta og lægsta verði, í 31 til­viki 40 til 60 prósent og í 24 til­vikum var yfir 60 prósent verð­munur.

Krónan var næst oftast með lægsta verðið.
Fréttablaðið/Anton Brink

69 prósent verð­munur á kíló­verði af frosnum þorsk­bitum

Í til­kynningu frá ASÍ kemur fram að kjöt- og fiskvörur vegi þungt í vöru­körfu margra, að þessar vörur geti verið nokkuð dýrar í inn­kaupum og að í mörgum til­fellum hafi verið mikill munur á hæsta og lægsta verði í þessum vöru­flokki.
Þannig var 69 prósent eða 900 króna munur á hæsta og lægsta kíló­verði á frosnum þorsk­bitum. Lægst var verðið í Krónunni, 1.299 krónur en hæst í Kjör­búðinni, 2.199 krónur.

Einnig var mikill verð­munur á lamba­kjöti eða 50 prósent munur á hæsta og lægsta verði á heilu, frosnu og ó­krydduðu lamba­læri. Lægst var verðið í Bónus, 1.198 krónur á kíló, en hæst í Fjarðar­kaupum, 1.798 krónur á kíló.

Fréttablaðið/GVA

143% verð­munur á frosnum jarðar­berjum

Mikill verð­munur var í flokki frysti­vara eða 38 prósent til 143 prósent. Mest var 143 prósent munur á hæsta og lægsta kíló­verði af frosnum jarðar­berjum. Lægst var verðið í Bónus 498 krónur á kíló en hæst var það í Heim­kaup 1.209 krónur á kíló.

Einnig má nefna 93 prósent mun á hæsta og lægsta verði á frosnum beyglum með kanil og rúsínum þar sem lægsta verðið var í Bónus 298 krónur en hæsta verðið í Hag­kaup 559 krónur.

Úr öðrum flokkum má nefna að mikill verð­munur var á ýmis­konar þurr- og niður­suðu­vöru. 78 prósent munur var á hæsta og lægsta verði af ISIO4 matar­olíu. Lægst var verðið í Bónus, 529 krónur en hæst í Iceland, 939 krónur.

Í flokki hrein­lætis­vara var 82 prósent verð­munur á Ariel Original þvotta­dufti, lægsta verðið var í Bónus 499 krónur á kíló en hæst var verðið í Hag­kaup 908 krónur á kíló.

Allt að 105% verð­munur á brauð- og korn­vöru

Mestur verð­munur í þessum vöru­flokki var á Jacob‘s te­kexi eða 105 prósent. Lægsta verðið var í Bónus 99 krónur en hæsta verðið í Heim­kaup 203 krónur. Þá var 86 prósent munur á hæsta og lægsta kíló­verði af Kellogg‘s Corn­fla­kes, lægst var verðið í Bónus, 657 krónur á kíló en hæst var verðið í Kjör­búðinni, 1.221 krónur á kíló.

Um könnunina

Í könnuninni var hillu­verð á 135 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upp­lýsingar um þegar hann á­kveður hvort hann ætli að kaupa við­komandi vöru. Ef af­sláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var fram­kvæmd í eftir­töldum verslunum: Nettó Mos­fells­bæ, Bónus Smára­torgi, Krónunni Sel­fossi, Fjarðar­kaupum, Iceland Engi­hjalla, Hag­kaup Skeifunni, Kjör­búðinni Sand­gerði og á Heim­kaup.is. Hér er að­eins um beinan verð­saman­burð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu sölu­aðila.

Í verð­töflunni hér að neðan má sjá verð á öllum vörum í könnuninni.