Samkeppnishæfni raforkuverðs Landsvirkjunar er að jafnaði mikil og heildar­raforkukostnaður minni stórnotenda (10-20 MW) var lægstur á Íslandi árið 2018 samkvæmt gögnum frá Euro­stat og verði í nýjum samningum Landsvirkjunar.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Landsvirkjunar sem kynnt verður á ráðstefnu orkufyrirtækisins í dag sem ber yfirskriftina Orkumarkaðir í mótun: Íslensk orka á alþjóðlegum mörkuðum. Í skýrslunni var meðalverð Landsvirkjunar til stórnotenda borið saman við verð á heildsölumarkaði raforku á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Var niðurstaðan sú að verðið væri mjög samkeppnishæft og einnig væri meiri breytileiki í verði erlendis.

Raforkuverð á norræna uppboðsmarkaðinum Nord Pool hefur hins vegar lækkað verulega á síðustu mánuðum vegna hagstæðs veðurfars. Nord Pool er markaður með raforkusamninga fyrir það rafmagn sem framleitt er á Norðurlöndunum.

„Það sem hefur verið að gerast er að fjárfesting í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku í Evrópu er að þrýsta raforkuverði niður. Á meginlandinu hefur raforkuverð til orkusækins iðnaðar farið lækkandi á síðustu misserum en hér heima hefur það verið að þokast upp á við,“ segir Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í samtali við Markaðinn.

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

„Þetta vegur að samkeppnisstöðu orkusækins iðnaðar hér á landi en hann er að skapa umtalsverð verðmæti fyrir þjóðarbúið, hvort sem litið er til starfa eða útflutningsverðmætis. Samkeppnishæfni skiptir höfuðmáli fyrir sjálfbærni greinarinnar. Raforkukostnaður er umtalsverður hluti heildarkostnaðar þessara fyrirtækja og því skiptir þróun hans miklu máli fyrir samkeppnishæfni þeirra. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að álverin, svo dæmi sé tekið, hafa sum hver verið rekin með tapi undanfarin misseri sem er mikið áhyggjuefni,“ segir Ingólfur.

„Þessi fyrirtæki eru í samkeppni við erlend fyrirtæki sem njóta raforkuverðs sem fer lækkandi, auk ríkisstyrkja. Þó að við séum ekki með opinn raforkumarkað þá er innlend framleiðsla á afurðum sem byggir á íslenskri raforku í samkeppni við erlenda framleiðendur.“

Í skýrslu Landsvirkjunar er vísað til greiningar verkfræðistofunnar Eflu. Þar kemur fram að heildsöluverð Landsvirkjunar til almennra notenda hafi lækkað um 16 prósent á föstu verðlagi 2006-2018.

Á sama tíma hafi smásöluverð raforku til fyrirtækja lækkað um þrjú prósent á föstu verðlagi og smásöluverð raforku til heimila hefur hækkað um 10 prósent umfram verðlag.

graf mark.jpg

Evrópska hagstofan, Eurostat, birtir árlega gögn um raforkukostnað mismunandi notenda. Landsvirkjun bendir á að miðað við gögn fyrir árið 2018 sjáist að heimili og fyrirtæki á Íslandi séu með lægsta raforkukostnaðinn af öllum Norðurlöndunum.

„Undanfarin ár hafa nýir stórnotendur bæst við flóruna á Íslandi sem eru ólíkir þeim sem fyrir voru. Þeir nota t.a.m. minna af rafmagni (talið í tugum frekar en hundruðum megavatta), rafmagnssamningarnir eru styttri og raforkueftirspurnin byrjar smátt en vex yfir tíma,“ segir í skýrslunni.