Síðustu misseri hafa verið fjárfestum á hlutabréfamarkaði erfið. Vísitalan hefur lækkað um tæp 4% síðasta mánuðinn og mörg félög umfram það. Ice­landair hefur lækkað um rétt 11% í mánuðinum. Marel og Hagar um einhver 3% og svo mætti áfram telja.

Þessi lækkunarfasi fylgir sumri þar sem mikil ládeyða ríkti, eins og jafnan er á þeim árstíma. Miðlarar, fjárfestar og aðrir þátttakendur á markaði þurfa víst að taka sér frí eins og aðrir. Svo virðist hins vegar sem markaðurinn sé enn í sumarfríi. Mörg félaganna leka dag eftir dag í lágmarksviðskiptum, að því er virðist, án þess að nokkrar rekstrarlegar forsendur séu að baki.

Auðvitað liggur fyrir að íslenskur hlutabréfamarkaður verður aldrei annað en örmarkaður. Af þeim sökum verður verðlagning fyrirtækja alltaf að stórum hluta flæðisdrifin. Við aðstæður eins og í haust þegar markaðsaðilar, og þá sérstaklega stofnanafjárfestar, halda svo algerlega að sér höndum, verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér hvort hreinlega séu forsendur fyrir því að reka hér almennan hlutabréfamarkað.

Hin hliðin á peningnum er hins vegar vitaskuld sú að verðlagning fyrirtækja á markaði fer að líta vel út. Markaðsvirði Sýnar er til að mynda einungis um 7 milljarðar. Neikvæð ávöxtun er á bréfum í Högum sé litið til síðustu fimm ára. Ljóst er þó að umtalsverðar eignir eru undirliggjandi. Sama gildir um Skeljung og fleiri. Við slíkar aðstæður hljóta hluthafar og aðrir bakhjarlar að velta fyrir sér hvort félög þeirra eigi eitthvert erindi á markaðinn. Væri ekki hægt að vinna betur úr verðmætum utan markaðar með því að afskrá félögin?

Lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar þurfa auðvitað að taka þátt ef þeir vilja að skráð hlutabréf verði hér fjárfestingarkostur til frambúðar. Annars er hætt við því að félögin hverfi af markaði eitt af öðru. Stjórnvöld ættu sömuleiðis að íhuga málið. Þátttaka almennings á markaði er nánast engin. Kannski þarf að endurvekja skattaafsláttinn gamla góða?