Yfirmaður bandarískra flugmálayfirvalda, FAA, útilokar ekki að kyrrsetning Boeing 737 MAX-þotnanna muni vara talsvert lengur en nú er gert ráð fyrir. Yfirvöld muni taka sér þann tíma sem þurfi til þess að ganga úr skugga um að þoturnar séu öruggar.

„Ef það tekur okkur ár að ljúka nauðsynlegri vinnu til þess að við treystum okkur til þess að aflétta kyrrsetningunni, þá verður svo að vera,“ sagði Daniel Elwell við fjölmiðla í gær en hann fundar í Texas í Bandaríkjunum í dag með flugmálayfirvöldum og eftirlitsstofnunum víða um heim til þess að ræða kyrrsetninguna og næstu skref í málinu.

„Ef þú nefnir október, þá gæti ég ekki einu sinni fallist á það, því við eigum eftir að ákveða nákvæmlega hver þjálfunarskilyrðin verða,“ nefndi Elwell.

Elwell sagði að FAA væri enn að bíða eftir því að forsvarsmenn bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing kynntu stofnuninni nýja uppfærslu á hugbúnaði sínum sem talið er að hafi valdið tveimur flugslysum á undanförnum mánuðum. Sem kunnugt er fórust tvær vélar af tegundinni 737 MAX með nokkurra mánaða millibili í Eþíópíu og Indónesíu með þeim afleiðingum að 346 manns létu lífið en í kjölfarið - í mars síðastliðnum - voru allar Boeing 737 MAX-vélar í heiminum kyrrsettar.

Stjórnendur Boeing tilkynntu í síðustu viku að framleiðandinn hefði lokið við uppfærsluna en þeir eiga eftir að kynna hana fyrir bandarískum yfirvöldum.

Elwell nefndi jafnframt að bandarísk flugmálayfirvöld hefðu enn ekki ákveðið hvort flugmenn yrðu skyldaðir til þess að gangast að nýju undir þjálfun á vélunum þegar hugbúnaðaruppfærslan verður tilbúin en eftirlitsstofnanir í sumum ríkjum munu vilja gera slíka kröfu til flugfélaga, að því er segir í frétt Financial Times.

Fulltrúar yfirvalda í Kanada, Evrópu og Indónesíu sögðust fyrir fundinn ætla að leggja fram eigin skilyrði um hvenær þoturnar mættu fljúga innan sinnar lofthelgi en vilji bandarískra stjórnvalda hefur hins vegar staðið til þess að flugmálayfirvöld um allan heim samræmi ákvarðanir sínar í málinu þannig að allir verði á sömu línu.