Kostnaður Íslands vegna uppgjörs á Kyoto-samningnum verður líklegast innan við 200 milljónir króna, ef marka má framvirka markaði með svokallaðar CER-einingar (e. certified reduction unit). Slíkar einingar má nýta til að standa skil á skuldbindingum Kyoto-sáttmálans. Ekki þarf að kaupa svokallaðar ETS-einingar til að standa skil á skuldbindingunum, að sögn Halldórs Þorgeirssonar, formanns loftslagsráðs umhverfisráðuneytisins.

ETS-kerfið er evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir, en samkvæmt vefsíðu Umhverfisstofnunar er ETS-kerfið „meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sambandinu,“ að því er segir á vef Umhverfisstofnunar. ETS-einingar kosta um 25 evrur fyrir jafngildi eins tonns af koltvísýringi á markaði, en CER-einingar kosta um 0,29 evrur um þessar mundir, samkvæmt markaðsgögnum frá Intercontinental Exchange-kauphöllinni (ICE).

Upphafleg einingaúthlutun Kyoto-sáttmálans var í formi svokallaðra AAU-eininga (e. assigned amount unit), en þær miðuðust við leyfðan útblástur á árunum 2008 til 2012. Viðskipti með slíkar einingar eru fátíð og eiga sér yfirleitt stað í tvíhliða samningum frekar en á opnum markaði. CER-einingar eru hins vegar jafngildar AAU-einingum, þegar kemur að því að uppfylla skilyrði Kyoto-sáttmálans.

Halldór nefnir að hafa þurfi hraðar hendur ef kaupa eigi þær CER-einingar sem til þarf, þar sem gera megi ráð fyrir því að verð á slíkum einingum hækki eftir að útgáfu þeirra verður hætt, þegar skuldbindingartímabili Kyoto-sáttmálans lýkur við árslok og Parísarsamkomulagið tekur við.

CER-kerfinu var upphaflega komið á fót til að ýta undir loftslagsvænar fjárfestingar í þróunarlöndum, en Kyoto-samkomulagið náði aðeins til OECD-ríkja. Að sögn Halldórs hefur fjöldi iðnríkja kosið að kaupa einingar af löndum sem þau eru þegar í þróunarsamstarfi við, en CER-einingar eru gefnar út eftir að árangur af fjárfestingum í loftslagsvænum verkefnum hefur verið mældur og vottaður. „Þetta kerfi hefur gefist mjög vel. Þetta hefur líka þýtt að ríki sem þurfa að kaupa losunarheimildir gera það á grundvelli fjárfestinga í umhverfisvænum verkefnum,“ segir Halldór.

Þetta hefur líka þýtt að ríki sem þurfa að kaupa losunarheimildir gera það á grundvelli fjárfestinga í umhverfisvænum verkefnum.

CER-einingar ganga reglulega kaupum og sölum á opnum markaði. ICE-kauphöllin er með framvirka samninga skráða fyrir slíkar einingar. Síðasta viðskiptaverð slíkra eininga var 0,29 evrur í þessari viku. Miðað við að Ísland þarf að kaupa einingar fyrir sem nemur fjórum milljónum tonna af koltvísýringi, yrði kaupverðið um 1,16 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 187 milljónum króna.

Áður hefur verið fjallað um að ríkissjóður gæti staðið frammi fyrir miklum útgjöldum vegna umframútblásturs á árunum 2013-2020. Hefur verið rætt um milljarða í því samhengi. Ef marka má núverandi markaðsverð CER-eininganna er það líklega töluvert ofmat, en Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 10. nóvember síðastliðinn „nokkrar leiðir færar til þess að bregðast við þessu“.

Litlu munaði að Kyoto-samkomulagið hefði ekki öðlast gildi að fullu á dögunum. Eitt skilyrða fullgildingar sáttmálans var að 144 af 192 ríkjum heims myndu formlega samþykkja hann fyrir 2. október síðastliðinn. Aðeins nokkrum klukkutímum áður en fresturinn rann út skilaði Nígería inn samþykki sínu á sáttmálanum. Deginum áður hafði karabíska eyríkið Jamaíka einnig veitt samþykki sitt, en af því tilefni tísti loftslagsdeild umhverfisráðuneytis Jamaíka að samþykki hafi verið veitt á hraða Usain Bolt.

Leiðrétt 25/11 kl. 15:23: Orðalagi fréttarinnar hefur verið breytt þar sem ekki er rétt að umhverfisráðherra hafi sjálfur látið hafa það eftir sér að umframútblástur Íslands vegna Kyoto-samkomulagsins muni kosta ríkissjóð milljarða króna. Myndatexta fréttar hefur jafnframt verið breytt.