Öldunga­deildar­þing­menn Repúblikana kynntu í gær nýjan efna­hags­pakka til að bregðast við á­hrifum CO­VID-19 heims­far­aldursins en pakkinn hljóðar upp á eina billjón Banda­ríkja­dali. Að því er kemur fram í frétt BBC hafa Banda­ríkja­menn þegar lagt til 2,4 billjón dollara til að bregðast við á­hrifum far­aldursins en hag­fræðingar hafa lengi sagt að meira þurfi til.

Pakkinn sem um ræðir felur í sér 100 milljarða til skóla í landinu auk þess sem Banda­ríkja­menn fá í annað sinn greiddar sér­stakar á­vísanir vegna far­aldursins, í þetta sinn upp á allt að 1200 dollara. Þá vilja Repúblikanar lækka sér­stakan at­vinnu­leysis­bóta­auka úr 600 dollurum niður í 200 á meðan ríki geta út­fært á­ætlanir sem gera ráð fyrir að fólk fái allt að 70 prósent af launum sínum til baka.

„Of lítið, of seint“

Mikil tog­streita hefur verið milli Repúblikana og Demó­krata vegna efna­hags­pakkans en Demó­kratar lögðu fram annan efna­hags­pakka í maí sem hljóðaði upp á þrjár billjónir dollara. Sá pakki var sam­þykktur í full­trúa­deildinni, þar sem Demó­kratar eru í meiri­hluta, en hefur ekki verið tekinn til af­greiðslu í öldunga­deildinni, þar sem Repúblikanar eru í meiri­hluta.

Demó­kratar segja til­lögur Repúblikana vera ó­full­nægjandi og sagði Chuck Schumer, leið­togi Demó­krata innan öldunga­deildarinnar, meðal annars að til­lögurnar væru „of lítið, of seint,“ en um 15 milljón störf hafa tapast vegna far­aldursins og er um einn fimmti vinnu­aflsins í Banda­ríkjunum er nú á at­vinnu­leysis­bótum. Schumer bætti þá við að Banda­ríkin væru að renna út á tíma.

Fyrirtæki þurfi að bera ábyrgð

Þá eru Demó­kratar einnig ó­sáttir við til­lögur Repúblikana sem segja að fyrir­tæki séu ekki skaða­bóta­skyld gagn­vart starfs­mönnum. Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings, sagði til að mynda að hún gæti ekki tekið undir það að fyrir­tæki þurfi ekki að tryggja heilsu starfs­manna sinna í far­aldrinum.

Það hefur einnig vakið athygli að í tillögum Repúblikana er að finna gífurlega upphæðir sem er ætlað að styrkja hernaðarmál í Bandaríkjunum auk þess sem gert er ráð fyrir að 1,75 milljarðar fari í uppbyggingu á nýjum höfuðstöðvum Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI.

Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana innan öldunga­deildarinnar sagðist fyrir helgi búast við að um­ræðurnar muni taka nokkrar vikur. Repúblikanar hafa lagt til að á­kveðnir þættir pakkans verði teknir út fyrir heildina og sam­þykktir þannig en Demó­kratar vilja meina að með því séu Repúblikanar að reyna að komast hjá því að taka fyrir þeirra að­gerðir.