Kristinn Þórðar­son, for­maður Sam­bands ís­lenskra kvik­mynda­gerðar­manna, segir fyrir­hugaðar laga­breytingar á endur­greiðslum vegna kvik­mynda­gerðar nei­kvæðar og telur að þær muni fæla er­lenda aðila frá ís­lenskum markaði – frekar en að laða þá hingað að. Verið sé að flækja annars skil­virkt og gott kerfi.

„Við erum í grunninn frekar ó­sátt. Það er verið að tala um að efla kvik­mynda­gerð og fá er­lend verk­efni hingað inn og mér finnst það frekar mikil þver­sögn við það sem verið er að boða, sem er þak á endur­greiðslurnar,“ segir Kristinn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Með um­ræddum breytingum er lagt til að þak verði sett á árs­greiðslur ein­stakra verk­efna, en lögum sam­kvæmt eiga fram­leið­endur kost á að fá endur­greiddan allt að helming þess fram­leiðslu­kostnaðar sem fellur til hér á landi. Verði breytingarnar sam­þykktar verða skil­yrði til endur­greiðslna þrengd og að­eins verður endur­greitt vegna leikinna kvik­mynda, leikinna sjón­varps­þátta og heimildar­mynda. Þá verður hætt að niður­greiða spjall- og skemmti­þætti. Í frum­varpinu segir að þetta sé meðal annars gert í þeim til­gangi að laða er­lenda aðila hingað til lands.

Hefur skilað bæði tekjum og túr­isma

„Það sem hefur verið já­kvætt við þetta kerfi er hvað það er gegn­sætt, auð­velt og hrað­virkt. Það er það sem hefur heillað er­lenda aðila til þess að koma hingað. Ég get ekki séð hvernig það á að setja þak á endur­greiðslurnar, og þar af leiðandi hægja á kerfinu, ætti að laða er­lendu fyrir­tækin hingað. Ég myndi frekar segja að þetta fæli fólk frá,“ segir Kristinn.

Kristinn segir að mikil gróska sé í kvikmyndagerð hér á landi um þessar mundir, en til að mynda standa yfir upptökur á Star Trek á vegum Netflix og á stórmynd með leikstjórann Terrence Malic í fararbroddi. Hann bendir því á að kvikmyndagerð skili Íslendingum miklu; bæði tekjum og túrisma. Ávinningurinn sé því okkar.

„Ef þessar breytingar fara í gegn þá gætu stór fyrir­tæki, sem koma hingað með stór verk­efni, þurft að bíða í allt að tíu ár eftir allri endur­greiðslunni. Auð­vitað er það þannig að ef enginn kemur hingað að filma þá þarf ríkið ekki að borga krónu, en við þurfum að átta okkur á því að við fáum þetta marg­falt til baka, í formi skatta og virðis­auka,“ segir hann.

„Ég kalla þetta súpertúr­isma. Þessi fyrir­tæki koma til landsins, eyða gígantiskum peningum, kaupa mat, gistingar, leigja bíla­leigu­bíla og þar fram eftir götunum. Og fyrir utan það að um það bil 20 prósent af túr­istum á Ís­landi komu hingað því þeir höfðu séð Ís­land í er­lendri bíó­mynd eða séð ís­lenska bíó­mynd.“

Einkennilegt strika skemmtiþættina út

Þá telur hann einnig nei­kvætt að skemmti­þættir muni ekki lengur heyra undir endur­greiðslurnar.

„Það er bara af­skap­lega ein­kenni­legt að ætla með einu penna­striki að þurrka þetta út. Þessi þróun hefur verið að gera mjög góða hluti, inn­lend fram­leiðsla alltaf að aukast og er­lend verk­efni að koma inn. Ég skil alveg að menn vilji gera breytingar, en kerfið hefur bara verið mjög gott og ef eitt­hvað er þá hefðum við viljað halda því ó­breyttu,“ segir Kristinn.

Frum­varps­drögin voru birt í Sam­ráðs­gátt stjórn­valda í vikunni og segir Kristinn að á­liti verði skilað inn á næstu vikum þar sem þessum á­formum verði mót­mælt harð­lega.