Kvika banki hafnaði skriflegri beiðni stjórnenda TM undir lok síðasta mánaðar um að hefja formlegar sameiningarviðræður en þær áttu, samkvæmt tillögum TM, meðal annars að grundvallast á þeim skilmálum að tryggingafélagið yrði metið á nokkuð hærra verði en fjárfestingabankinn við mögulegan samruna félaganna. Stjórn Kviku taldi hins vegar engar forsendur til að hefja formlegar viðræður á þeim grunni.

Samkvæmt heimildum Markaðarins var gert ráð fyrir því í uppleggi TM að skiptihlutföllin yrðu þannig að hlutafé tryggingafélagsins yrði í kringum 55 prósent í sameinuðu félagi á meðan hlutafé Kviku banka yrði þá á móti liðlega 45 prósent. Miðað við það áttu hlutabréf Kviku að vera metin á aðeins lítillega hærra verði en á markaði í dag eða um 10,2 krónur á hlut – gengið stendur nú í 9,6 krónum á hlut – og að markaðsvirði bankans væri því talið vera rúmlega 20 milljarðar króna. Markaðsvirði TM stendur hins vegar í um 25 milljörðum króna.

Ósk TM um að hefja sameiningarviðræður, sem var komið á framfæri með bréfi til stjórnar Kviku banka föstudaginn 26. júní síðastliðinn, kom í kjölfar óformlegra samtala sem höfðu áður átt sér stað milli æðstu stjórnenda um að kanna fýsileika þess að sameina félögin. Samkvæmt heimildum Markaðarins var bréfi TM svarað tveimur dögum síðar og beiðni um að hefja formlegar viðræður sem fyrr segir hafnað af stjórn bankans. Að óbreyttu er ekki talinn grundvöllur til að fara í slíkar viðræður enda sé það mat stjórnenda Kviku að ekkert réttlæti að TM verði metið á hærra verði en bankinn.

Greint var frá því í Markaðnum í síðustu viku að stjórnendur Kviku og TM hefðu að undanförnu átt í óformlegum samtölum um mögulega sameiningu félaganna – nú síðast um þar síðustu helgi – en ekki hefði náðst samkomulag um undirritun viljayfirlýsingar um að hefja formlegar viðræður. Því væru viðræðurnar, að sögn nokkurra sem komu að þeim, á ís eins og sakir stæðu.

TM og Kvika sáu ástæðu til að senda frá sér tilkynningu í kjölfar fréttar Markaðarins og sagðist TM vilja „árétta að engar viðræður væru í gangi um mögulegan samruna [félaganna], né væru slíkar viðræður fyrirhugaðar.“

Starfsemi félaganna er um margt talsvert ólík. Kvika banki, sem hefur orðið til úr sameiningu fjölmargra fjármálafyrirtækja á undanförnum árum, skilgreinir sig sem sérhæfðan fjárfestingabanka, sem leggi áherslu á eignastýringu fjárfestingastarfsemi. Með kaupum TM á eignaleigufyrirtækinu Lykli, sem gengu í gegn í janúar á þessu ári, bættist þriðja stoðin undir starfsemi tryggingafélagsins, ásamt vátryggingastarfsemi og fjárfestingum.

Samkvæmt viðmælendum Markaðarins, sem þekkja vel til viðræðna félaganna að undanförnu, er ljóst að stjórnendur TM horfa einkum til þeirrar samlegðar sem myndi fást með því að renna Lykli saman við þá bankastarfsemi sem er fyrir hendi innan Kviku banka. Yfirlýst áform TM hingað til hafa verið að sækjast eftir viðskiptabankaleyfi fyrir Lykil þannig að félagið, sem hefur að stærstum hluta verið að bjóða upp á fjármögnun bíla og atvinnutækja, geti farið að byrja að bjóða upp á innlán.

Stærstu hluthafar TM eru fjárfestingafélagið Stoðir, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR). Lífeyrissjóður verslunarmanna og LSR eru sömuleiðis á meðal umsvifamestu hluthafa í Kviku banka, en stærsti einkafjárfestirinn í eigendahópi bankans, með tæplega 6,8 prósenta hlut, er eignarhaldsfélagið SNV í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur.

Hagnaður TM á árinu 2019 nam 1.866 milljónum króna eftir skatta. Afkoman var drifin áfram af fjárfestingatekjum upp á 2.945 milljónir króna, sem jafngilti rúmlega 10 prósenta ávöxtun á eignasafn félagsins. Hagnaður Kviku banka var hins vegar 2.660 milljónir eftir skatta í fyrra og var arðsemi bankans á eigin á fé um 21 prósent.