Kvika hefur hækkað um 4,3 prósent á hlutabréfamarkaði í morgun í 537 milljón króna veltu. Leiða má líkum að því að hækkunina megi rekja til tilkynningar þess efnis í gær að samruni TM og Kviku banka geti skapað meiri samlegð en lagt hafi verið upp með þegar fyrst var greint frá áformunum. Áhrif vegna bæði tekjusamlegðar og kostnaðarsamlegðar séu talin geta numið allt að þremur milljörðum króna.

Samruni félaganna undir nafni Kviku var samþykktur á hluthafafundi þeirra í gær. Eins og áður hefur verið gefið út telja stjórnir félaganna raunhæft að með samrunanum megi ná fram á bilinu 1.200-1.500 milljóna króna árlegri kostnaðarsamlegð, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Því til viðbótar er talið að það séu önnur tækifæri í kostnaðarsamlegð en þau þarfnast frekari greiningar eftir samruna.

Þá er áætlað að eftir þrjú ár hafi náðst tekjusamlegð að fjárhæð 1.500 milljónir króna. Tekjusamlegð felst í afkomu af starfsemi sem líklega hefði ekki náðst án samrunans.

Það er því áætlað að tekju- og kostnaðarsamlegð leiði til þess að árlegur hagnaður sameinaðs félags fyrir skatta verði 2.700-3.000 milljónum króna hærri en hagnaður félaganna hefðu þau ekki sameinast að þremur árum liðnum.