Kvika banki getur hæglega greitt út um fjóra milljarða króna til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Kviku á eiginfjárgrunni er mjög sterkt eða 29,3 prósent en krafa Fjármálaeftirlits Seðlabankans er 20,6 prósent. Þetta kemur fram í verðmati Jakobsson Capital sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Miklar breytingar urðu á efnahagsreikning Kviku-samstæðunnar í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs eftir samruna TM og Kviku. „Ein breytingin var sú að miklar óefnislegar eignir mynduðust við samrunann þ.e. verið var að sameina tvö félög á töluverðu yfirverði. Eiginfjárhlutfall Kviku rauk upp við þann gjörning,“ segir í verðmatinu.

Jakobsson Capital verðmetur Kviku banka á 19,0 krónur á hlut en markaðsvirði bankans er 23,4 krónur á hlut. Markaðsvirðið er því 23 prósentum hærra en verðmatið. „Líklega eru fjárfestar að búast við hraðari vexti og að vaxtatækfæri og samlegð Kviku séu meiri en Jakobsson Capital gerir ráð fyrir,“ segir í verðmatinu.

Greinandinn segir að útlit sé fyrir að það verði „rokna hagnaður“ af rekstri Kviku-samstæðunnar í ár. Reiknað sé með að hann verði 8.452 milljónir króna fyrir skatt.

Hagnaður Kviku-samstæðunnar nam 2.520 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi og gerir Jakobsson Capital ráð fyrir því að hann verði um 1.977 milljóna króna á hverjum ársfjórðungi. „Mjög mikill gengishagnaður var af fjárfestingareignum TM á fyrsta ársfjórðungi og nam hagnaðurinn 1.663 milljónum króna. Ólíklegt er að viðlíka gengishækkanir verði á verðbréfamarkaði seinni hluta árs líkt og var á fyrsta ársfjórðungi. Úrvalsvísitalan hækkaði um 12,9 prósent á fyrsta ársfjórðungi en hækkaði um 9,3 prósent á öðrum ársfjórðungi,“ segir í verðmatinu en þar er bent á að vaxtahækkanir hafi neikvæð áhrif á skuldabréfasafn tryggingarfélaganna.

Það kæmi greinanda Jakobsson Capital ekki á óvart, að því er segir í verðmatinu, ef Kvika banki fengi góða lánshæfiseinkunn. Rekstur bankans byggi á mörgum stoðum: eignastýringu, tryggingum og lánum. „Vægi lánahluta er lágt í samanburði við hefðbundinn banka.“