Landsréttur sýknaði í dag Kviku banka af kröfu ET sjónar, félags í eigu augnlæknisins Eiríks Ingvars Þorgeirssonar, í skaðabótamáli í tengslum við fjárfestingu félagsins í drykkjarframleiðandanum Ölgerðinni.

ET sjón krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu fjárfestingarbankans vegna meintrar ófullnægjandi ráðgjafar af hálfu Auðar Capital, sem síðar sameinaðist Virðingu, í tengslum við fjárfestinguna. Kvika festi sem kunnugt er kaup á öllu hlutafé Virðingar í fyrra.

Félag Eiríks Ingvars, sem fjárfesti í Ölgerðinni í gegnum eignarhaldsfélagið Þorgerði árið 2010, byggði einkum á því fyrir Landsrétti að ráðgjafar Auðar Capital hefðu ekki gert grein fyrir því að óvissa ríkti um lögmæti skattskila Ölgerðarinnar, í kjölfar öfugs samruna framleiðandans við Límonaði árið 2007, sem og lögmæti fjármögunarleigusamninga drykkjarframleiðandans við Lýsingu í erlendri mynt.

Að virtum dómi Hæstaréttar frá því í febrúar árið 2016, sem varðaði bótaskyldu endurskoðanda vegna skattskila félags við öfugan samruna, taldi Landsréttur að það yrði ekki metið Auði Capital til sakar að hafa ekki varað ET sjón við áhættu sem kynni að tengjast skattskilum Ölgerðarinnar. 

Þá var ET sjón ekki talið hafa sýnt fram á að starfsmenn Auðar Capital hefðu veitt ófullnægjandi upplýsingar að því er varðaði óvissu um lögmæti fjármögnunarleigusamninga.

Var Kvika banki af þessum sökum sýknaður af kröfu félagsins.

ET sjón keypti haustið 2010 ríflega 28 prósenta hlut í Þorgerði, sem stofnað var utan um kaup á 45 prósenta hlut í Ölgerðinni, fyrir um 240 milljónir króna. Sex árum síðar, eða í október árið 2016, seldi Þorgerður hópi fjárfesta, þar á meðal framtakssjóðunum Akri fjárfestingum og Horni II, hlut sinn í drykkjarvöruframleiðandanum á 5,2 milljarða króna.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrr á árinu var bent á að ætla mætti að um einn milljarður króna hefði fallið í skaut ET sjónar við söluna. Fjárfestingin hefði því skilað félaginu yfir 27 prósenta árlegri arðsemi á fjárfestingatímanum.

Dómur Landsréttar.