„Þetta má ekki vera þannig að einhver kverúlant hjá eftirlitsstofnun segi: Æ, mér er illa við þennan, þetta er KR-ingur. Við skulum nota kerfið til að níðast á honum,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda.

Þetta er haft eftir Guðmundi í opnuviðtali í Markaðinum en hann var valinn viðskiptamaður ársins af dómnefnd blaðsins. Hann segir mikilvægt að íslenskar eftirlitsstofnanir fari með nærgætni og aðgát við rannsókn mála.

Af meiri nærgætni og aðgát en nú?

„Já, og ég skal taka einfalt dæmi,“ segir hann og vísar hér til frummats Samkeppniseftirlitsins frá því í sumar, en þar kom fram að það kynni að brjóta samkeppnislög að Guðmundur tók við stjórnartaumunum í HB Granda.

„Við fengum fjórar spurningar frá Samkeppniseftirlitinu og ein af þeim sneri að því að ég væri í stjórn Vinnslustöðvarinnar. Ég hafði hætt í stjórninni þremur mánuðum áður og það voru opinberar upplýsingar. Það stendur í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að ég sé farinn út úr stjórninni. En þrátt fyrir það var gerð athugasemd um að ég sæti í stjórn Vinnslustöðvarinnar og í framhaldi var sent bréf til stjórnarinnar og hún beðin um álit á kaupum mínum í HB Granda. Þegar það álit Vinnslustöðvarinnar kom til Samkeppnisstofnunar var það bara rógburður um mig. Maður spyr sig hvernig standi á því að opinber eftirlitsstofnun sendi svona illa undirbúna fyrirspurn og hvernig gat þessi fyrirspurn komist í gegnum innra eftirlit Samkeppniseftirlits áður en þetta bréf var sent út og það sent á fjölmiðla?“ segir Guðmundur.

„Svo segja allir að ég megi ekkert segja um Samkeppniseftirlitið því annars fái ég bara allt eftirlitskerfið á mig. Það er eins og Samkeppniseftirlitið sé stofnun sem enginn þorir að segja neitt um. Eins og það gangi hérna á vatni og allir pissi í buxurnar ef það kemur. Ef enginn þorir að segja barninu á heimilinu til syndanna þá yfirtekur það heimilið. Þetta má ekki vera þannig að einhver kverúlant hjá eftirlitsstofnun segi: Æ, mér er illa við þennan, þetta er KR-ingur. Við skulum nota kerfið til að níðast á honum,“ segir Guðmundur.

Heldurðu að þetta sé með þeim hætti sem þú lýsir?

„Ég veit það ekki en þetta er lítið land. Ég hef stundum sagt að ég óski þess að Hæstiréttur Íslands væri í Kaupmannahöfn því þá er líklegra að eingöngu verði dæmt á lagalegum grundvelli.“