Móðurfélag British Airways hefur kvartað til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna björgunar Flybe sem félagið telur að brjóti mögulega í bága við evrópskar reglur um ríkisaðstoð.

Forsvarsmenn Ryanair hafa auk þess skrifað Sajid Javid, fjármálaráðherra Bretlands, bréf þar sem tekið er fram að allar aðgerðir sem miða að því að hjálpa Flybe með því að lækka skatta á innanlandsflug - en ekki utanlandsferðir - feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð til handa þeim flugfélögum sem sinna flugi innanlands.

Sem kunnugt er náðist í gær samkomulag á milli breskra stjórnvalda og Flybe sem gerir flugfélaginu kleift að halda áfram rekstri en það hefur glímt við mikinn fjárhagsvanda að undanförnu. Samkomulagið felur meðal annars í sér greiðslufrest á flugfarþegasköttum flugfélagsins (e. air passenger duty) - en þeir nema um 106 milljónum punda á ári - og möguleika á lánveitingu frá breska ríkinu.

Björgunarpakki breskra yfirvalda féll eins og gefur að skilja ekki í kramið hjá mörgum flugfélögum sem gagnrýndu harðlega að skattfé hefði verið nýtt til þess að bjarga keppinauti þeirra.

Willie Walsh, fráfarandi forstjóri International Airlines Group, móðurfélags British Airways, sagði björgunarpakkann fela í sér „blygðunarlausa misnotkun á almannafé“. Skattgreiðendur væru látnir bera ábyrgð á óstjórn Flybe.

„Skattgreiðendur eiga ekki að vera látnir bjarga einstökum fyrirtækjum, sérstaklega ekki þegar fyrirtækin eru studd af vel fjármögnuðum fjárfestum,“ sagði Johan Lundgren, forstjóri easyJet, um tíðindin.

Stjórnendur Ryanair sögðust þegar hafa kallað eftir því að fjárhagslega veikburða flugfélög yrðu látin undirgangast erfiðari álagspróf „þannig að skattborgarar þyrftu ekki að koma þeim til bjargar“, að því er segir í frétt Financial Times.

Flybe hefur verið í rekstri frá árinu 1979 og flytur um átta milljónir farþega á ára á milli 71 flugvallar í Evrópu. Um tvö þúsund manns starfa hjá flugfélaginu.