Mikill kurr er í starfsfólki og aðstandendum WOW air vegna ummæla stjórnarformanns Íslandsstofu í morgun, þar sem hann velti því upp hvort Samgöngustofa hefði átt að svipta flugfélagið flugrekstrarleyfi. 

Framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sem er stofnun sem hefur það hlutverk að sinna kynningarstarfi í þágu íslenskra útflutningsgreina, vill ekki tjá sig um ummæli stjórnarformannsins. Björgólfur, sem keypti hlutabréf í Icelandair í haust fyrir 3,1 milljón króna, segir við Fréttablaðið að hann voni að WOW air lifi og að hann hafi ekki farið í viðtalið sem stjórnarformaður Íslandsstofu.

Nokkuð langt síðan WOW uppfyllti skilyrðin

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og núverandi stjórnarformaður Íslandsstofu, sagði í Bítinu í morgun að það væri hlutverk Samgöngustofu að fylgjast með hvort skilyrði til flugrekstrarleyfis væru uppfyllt. „Mér sýnist nokkuð langt síðan þetta félag var það ekki,“ sagði Björgólfur um WOW air.

Sjá einnig: Björgólfur: Samgöngustofa hefði átt að grípa inn í

Hann sagðist spyrja sig hvort Samgöngustofa hefði átt að grípa inn í og nefndi að það hefðu Bretar gert í tilviki flugfélagsins Monarch, þegar ekki var útlit fyrir að félagið gæti staðið undir skuldbindingum sínum. „Mér finnst þetta vera spurningum vinnubrögð hjá Samgöngustofu, hvort að við höfum brugðist þarna.“ Hann varaði við því að málið væri of svört mynd af afleiðingum sem fylgdu mögulegu gjaldþroti WOW air.

Fréttablaðið hefur rætt við starfsfólk WOW í morgun sem segir að mikill óánægja sé uppi með framgöngu Björgólfs.

Framkvæmdastjórinn vill ekki tjá sig

Fréttablaðið hafði samband við Pétur Þorsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, vegna ummælanna. Hann vildi ekkert láta hafa eftir sér um ummælin. „Íslandsstofa hefur það hlutverk að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar með þróttmiklu starfi í þágu íslenskra útflutningsgreina,“ segir á heimasíðu Íslandsstofu um hlutverk hennar.

Björgólfur sjálfur segist ekki hafa farið í viðtalið sem stjórnarformaður Íslandsstofu, spurður hvort málflutningur hans samrýmist hlutverki þeirrar stofnunar sem hann situr í stjórn og í og gegnir stjórnarformennsku.

Hann segist hafa fengið gífurleg viðbrögð við viðtalinu, bæði jákvæð og neikvæð. Hann segist einfaldlega hafa verið að tala út frá fréttaflutningi af stöðu WOW. Hann hafi sett fram spurningar um eftirlitshlutverk Samgöngustofu, sem á að fylgjast með þeim sem eru með flugrekstrarleyfi og sjá til þess að þau standist þau lög og reglur sem gildi um flugfélög. Það sé hlutverk Samgöngustofu. 

Vonar að WOW air lifi

„Ég hef aldrei sett mig inn í rekstrarstöðu WOW air,“ segir hann og bætir við: „Ég var ekki að segja neitt annað en það að ef fjárhagsstaðan er þannig, að þá geti þurft að grípa til aðgerða. Í því getur falist svipting flugrekstrarleyfis. En það geta líka verið aðgerðir sem leiða af sér að fjárhagsstaðan verður sterkari.“

Björgólfur segist binda vonir við að WOW air fari ekki í þrot. „Ég vona að WOW air haldi áfram. Ég er ekkert að segja að það hafi átt að svipta félagið flugrekstrarleyfi. Ég setti bara fram spurningar um hvort Samgöngustofa hafi verið með sitt hlutverk í lagi. Ég vona að það hafi ekki gefist tilefni til sviptingar, en miðað við fréttaflutninginn er það ekki ljóst.“

Ætlaði ekki að ráðast á WOW

Fram kom í viðtalinu í morgun að áhrifin, fari WOW air af markaði, væru ekki eins svakaleg og látið hafi verið í veðri vaka. „Ég hef trú á því að okkur Íslendingum takist að snúa vörn í sókn og markaðssetja landið eins og við gerðum 2010. Að við berjum í bresti og eigum fullt af tækifærum. En auðvitað væri það áfall ef svona stórt félag verður gjaldþrota.“ 

Hann bendir á að þetta sjónarmið hans samrýmist hlutverki Íslandsstofu. „Við þurfum að vinna í því að ná þessu til baka, ef félagið fer illa. – sem ég vona að verði ekki. Það var ekki hugsunin að ráðast á WOW. Ég tók það fram að ég væri að fjalla um stöðuna út frá fréttaflutningi.“