Gréta María Grétars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, segir að það hafi á­hrif á inn­kaup á berjum að Icelandair muni hætta að fljúga til San Fransisco í Kali­forníu í Banda­ríkjunum um ára­mótin. Verslunar­keðjan kaupi ber frá Banda­ríkjunum en mikið af á­vöxtum og græn­meti frá Evrópu.

Hún segir að áður en upp­lýst hafi verið um að flug­fé­lagið myndi hætta um­ræddu á­ætlunar­flugi hafi verið hafist handa við að kanna fýsi­leika þess að kaupa ber frá Seatt­le og austur­strönd Banda­ríkjanna. Sömu­leiðis sé verið að skoða mögu­leika flytja vörur með skipum. „Það eru minni hræringar þar,“ segir Gréta María.

Krónan flutti vörur með WOW air þar til flug­fé­lagið varð gjald­þrota í mars. „Við urðum að finna aðra leiðir þá og höfum verið í við­skiptum við Icelandair,“ segir hún.

Ekki náðist í Gunnar Inga Sigurðs­son, fram­kvæmda­stjóra Hag­kaups, við vinnslu fréttarinnar.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.