Verslunarkeðjan Krónan og álframleiðandinn Rio Tinto hlutu Hvatningarverðlaun jafnréttismála Samtaka atvinnulífsins og Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í gærmorgun. Í ár var einnig sérstakur Jafnréttissproti veittur vegna framtaks til fjölmenningar, fötlunar og annarra brýnna viðfangsefna jafnréttismála.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á þeim fyrirtækjum sem hafa sett jafnrétti á oddinn og jafnframt til að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama.
Krónan hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála
„Við hjá Krónunni erum afar stolt og þakklát fyrir hvatningarverðlaunin. Fjölbreytileiki skiptir svo sannarlega máli og við viljum gefa starfsfólki okkar tækifæri á að vaxa í starfi óháð kyni, uppruna, bakgrunni, aldri, trúarbragða og kynhneigð,“ sagði Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdarstjóri Krónunnar við tilefnið. Dómnefnd veitti Krónunni hvatningarverðlaun jafnréttismála á sviði kynjajafnréttis.
Dómnefndin sagði að Krónan hafi markvisst unnið að jafnrétti innan fyrirtækisins og ávinningurinn sé áþreifanlegur. Stjórnendur hafa byggt af miklum krafti ofan á traustan grunn félagsins þar sem horft er til jafnréttis í víðum skilning.
Rio Tinto hlaut Jafnréttissprotann
Þá hlaut Rio Tinto Jafnréttisprotann árið 2022. Dómnefnd sagði að jafnréttismál hafi löngu verið hornsteinn í starfsemi Rio Tinto á Íslandi, en fyrirtækið vann Hvatningarverðlaun jafnréttismála fyrst fyrirtækja árið 2014.
Nýlega hefur fyrirtækið innleitt tvö ný frumkvæði í starfsemi sína, sem eru veigamikið og framsækið skref í jafnréttismálum. Annars vegar er að ræða útfærslu á fæðingarstyrk og hins vegar stuðningur við starfsfólk sem er þolandi heimilisofbeldis.
„Við tökum stolt á móti þessari viðurkenningu. Jafnrétti er eitt af leiðarstefnum í starfsemi okkar og við setjum heilsu og öryggi starfsfólks okkar í forgang. Þessi tvö frumkvæði sem Rio Tinto hlýtur jafnréttissprotann fyrir sýna með beinum hætti hvernig við vinnum að því að stuðla að jafnrétti og hvernig við störfum í samræmi við okkar gildi og sýnum umhyggju fyrir starfsfólki okkar. Orðum þurfa að fylgja raunverulegar aðgerðir og áætlanir,“ sagði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti ávarp á verðlaunaafhendingunni og tilkynnti um verðlaunahafa.
„Þótt Ísland mælist best og hæst í jafnrétti á alþjóðavísu erum við svo langt frá því að vera búin. Í raun þýðir árangurinn að við séum skást og eigum mikið eftir. Ef við höldum ekki áfram þá munum við ekki leiða önnur lönd í rétta átt. Jafnrétti og jöfn tækifæri eru hluti af öllum málaflokkum í okkar samfélagi,“ sagði Áslaug.