Verslunar­keðjan Krónan og ál­fram­leiðandinn Rio Tin­to hlutu Hvatningar­verð­laun jafn­réttis­mála Sam­taka at­vinnu­lífsins og Há­skóla Ís­lands við há­tíð­lega at­höfn í gærmorgun. Í ár var einnig sérstakur Jafnréttissproti veittur vegna framtaks til fjölmenningar, fötlunar og annarra brýnna viðfangsefna jafnréttismála.

Mark­mið verð­launanna er að vekja at­hygli á þeim fyrir­tækjum sem hafa sett jafn­rétti á oddinn og jafn­framt til að hvetja önnur fyrir­tæki til þess að gera slíkt hið sama.

Krónan hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála

„Við hjá Krónunni erum afar stolt og þakk­lát fyrir hvatningar­verð­launin. Fjöl­breyti­leiki skiptir svo sannar­lega máli og við viljum gefa starfs­fólki okkar tæki­færi á að vaxa í starfi óháð kyni, upp­runa, bak­grunni, aldri, trúar­bragða og kyn­hneigð,“ sagði Guð­rún Aðal­steins­dóttir, fram­kvæmdar­stjóri Krónunnar við til­efnið. Dóm­nefnd veitti Krónunni hvatningar­verð­laun jafn­réttis­mála á sviði kynja­jafn­réttis.

Dóm­nefndin sagði að Krónan hafi mark­visst unnið að jafn­rétti innan fyrir­tækisins og á­vinningurinn sé á­þreifan­legur. Stjórn­endur hafa byggt af miklum krafti ofan á traustan grunn fé­lagsins þar sem horft er til jafn­réttis í víðum skilning.

Rio Tinto hlaut Jafnréttissprotann

Þá hlaut Rio Tin­to Jafn­rétti­sprotann árið 2022. Dóm­nefnd sagði að jafn­réttis­mál hafi löngu verið horn­steinn í starf­semi Rio Tin­to á Ís­landi, en fyrir­tækið vann Hvatningar­verð­laun jafn­réttis­mála fyrst fyrir­tækja árið 2014.

Ný­lega hefur fyrir­tækið inn­leitt tvö ný frum­kvæði í starf­semi sína, sem eru veiga­mikið og fram­sækið skref í jafn­réttis­málum. Annars vegar er að ræða út­færslu á fæðingar­styrk og hins vegar stuðningur við starfs­fólk sem er þolandi heimilis­of­beldis.

„Við tökum stolt á móti þessari viður­kenningu. Jafn­rétti er eitt af leiðar­stefnum í starf­semi okkar og við setjum heilsu og öryggi starfs­fólks okkar í for­gang. Þessi tvö frum­kvæði sem Rio Tin­to hlýtur jafn­réttis­sprotann fyrir sýna með beinum hætti hvernig við vinnum að því að stuðla að jafn­rétti og hvernig við störfum í sam­ræmi við okkar gildi og sýnum um­hyggju fyrir starfs­fólki okkar. Orðum þurfa að fylgja raun­veru­legar að­gerðir og á­ætlanir,“ sagði Rann­veig Rist, for­stjóri Rio Tin­to.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, vísinda-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, flutti á­varp á verð­launa­af­hendingunni og til­kynnti um verð­launa­hafa.

„Þótt Ís­land mælist best og hæst í jafn­rétti á al­þjóða­vísu erum við svo langt frá því að vera búin. Í raun þýðir árangurinn að við séum skást og eigum mikið eftir. Ef við höldum ekki á­fram þá munum við ekki leiða önnur lönd í rétta átt. Jafn­rétti og jöfn tæki­færi eru hluti af öllum mála­flokkum í okkar sam­fé­lagi,“ sagði Ás­laug.