Krónan hefur á­kveðið að gera á­kveðnar breytingar í ljósi herts sam­komu­banns til að tryggja öryggi starfs­manna og við­skipta­vina en á­kvarðanirnar varða hversu margir mega vera inni í hverri verslun á hverjum tíma­punkti.

Hert sam­komu­bann tók gildi um mið­nætti og mega nú ekki fleiri en 20 manns koma saman. Sér­stakar reglur gilda þó um mat­vöru- og lyfja­verslanir en þar mega 100 manns vera inni á hverjum tíma ef hægt er að tryggja tveggja metra bil milli við­skipta­vina.

Sam­kvæmt nýjustu á­kvörðun Krónunnar verða 100 við­skipta­vinir leyfðir í stærri verslunum, það er í Flata­hrauni, Granda, Bílds­höfða, Mos­fells­bæ, og Sel­fossi en í Lindunum verða 150 við­skipta­vinir leyfðir vegna stærðar verslunarinnar.

Í verslunum Krónunnar á Akra­braut, Akra­nesi, Fitjum, Grafar­holti, og Valla­kór verða 80 við­skipta­vinir leyfðir. Í öðrum verslunum verður há­marks­fjöldi miðaður við 50 manns. Þá verða þrif einnig aukin tölu­vert í öllum verslunum.

Stefna á að opna snjallverslun á næstu dögum

„Við setjum í for­gang að tryggja öryggi við­skipta­vina og starfs­manna okkar og erum því að breyta ferli okkar. Með þessum til­færslum verður enn auð­veldara fyrir við­skipta­vini okkar að tryggja 2 metra fjar­lægð,“ segir Gréta María Grétars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, og þakkar fólki fyrir að taka vel í að­gerðirnar og dreifa inn­kaupum sínum. „Við vitum að ef við stöndum öll saman og vöndum til verka þá gengur þetta eins vel og kostur er.“

Þá hefur einnig verið unnið hörðum höndum að gang­setningu snjall­verslunar Krónunnar en til stóð að opna verslunina í haust. Stefnt er á að opna verslunina fyrir al­menningi á næstu dögum. „Við teljum mikil­vægt að við­skipta­vinir okkar geti nálgast vörur okkar og snjall­verslunin verður ein af leiðunum til þess fljót­lega,“ segir Gréta að lokum.