Fari svo að flugfélaginu SAS verði gert skylt að greiða út skaðabætur til farþega sinna vegna aflýstra flugferða í kringum verkfall flugmanna gæti það reynst félaginu ansi kostnaðarsamt.

Verk­fall yfir 1.400 flugmanna félagsins hófst á föstu­dag í síðustu viku og stóð það yfir í sex daga. Samningar náðust í gærkvöldi á milli samninganefnda flugmanna SAS og viðsemjenda þeirra. Alls var í kringum fjögur þúsund flug­ferðum fé­lagsins af­lýst á þessum sex dögum og þá fundu yfir þrjú hundruð þúsund far­þegar fyrir verk­fallinu.

Þeir eru þó í fá­mennum hópi, enn sem komið er, far­þegarnir sem leitast hafa eftir bótum. VG greinir frá því að á bilinu 20 til 30 manns hafi kvartað til sam­göngu­yfir­valda og krafist bóta. SAS hefur þegar hafnað öllum kröfum um bætur vegna af­lýstra flug­ferða.

Hluta­bréfa­greinandinn Jacob Peder­sen, hjá danska bankanum S­yd­bank, segir hins vegar að fari svo að SAS sé skylt til að greiða út skaða­bætur gæti það kostað fé­lagið á bilinu einn til tvo milljarða sænskra króna, 13 til 26 milljarða ís­lenskra króna. Hann telur líkurnar þó meiri en minni að SAS sleppi við slíkan skell.

Peder­sen segir jafn­framt að sam­keppnis­staða fé­lagsins sé verri með ný­sam­þykktum samningum. Hætta sé á að aðrir starfsmenn krefjist einnig betri kjara og óttast hann að með því verði höfrungahlaupi hrundið af stað.

Samningar flugmannanna eru sagðir kveða á um 11 prósent hækkun launa í þremur skrefum á jafnmörgum árum.