„Það er erfitt að breyta hlutfallslegum launum ólíkra hópa. Það lítur út fyrir, án þess að þekkja málavexti umfram það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, að það muni kveikja áhuga annarra hópa á sambærilegum launahækkunum ef orðið verður við kröfum Eflingar,“ segir Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

„Reynslan er sú að þá komi til höfrunahlaups þar sem einn hópur fær leiðréttingu og þá kvikna kröfur hjá öðrum sambærilegum hópi, til dæmis hjá hópi háskólamenntaðra sem sinnir svipuðum störfum. Þannig heldur það áfram koll af kolli.“

Forsvarsmenn Eflingar hafa afhent borg­ar­stjóra Reykjavíkurborgar verkfallsboðun en fé­lags­menn samþykktu verk­fallsaðgerðir í fyrradag með 95,5 pró­sent­um greiddra at­kvæða. Efling fer fram á 22 til 52 þúsund króna launahækkanir ofan á 90 þúsund króna launahækkanir lífskjarasamninganna. Þá hefur einnig vakið athygli krafa um desemberuppbót upp á rúmar 400 þúsund krónur.

Daði Már segir að það sem hafi einkennt verkalýðsbaráttuna fyrir þjóðarsáttarsamningana árið 1990 hafi verið „eilíf stökk fram og til baka sem á endanum skiluðu litlum breytingum.“ Þannig hafi náðst tímabundinn ávinningur sem hafði þó tilhneigingu til þess að deyja út.

Sértækar hækkanir einstakra hópa þurfa að vera hluti af heildarkröfugerð verkalýðshreyfingarinnar ef það á að skila sér og ef forðast á höfrungahlaupið.

„Þó að flestir hafi fullan skilning á því að erfitt sé að lifa á lægstu launum þá er almennur sannleikur að erfitt hefur reynst að leiðrétta einn tiltekinn hóp. Oft þegar það hefur verið reynt hafa afleiðingarnar verið tímabundinn ávinningur sem deyr út vegna þess að kröfurnar smitast út um allt kerfið,“ segir Daði Már.

Þá vísar hann til þess að mikið hafi verið rætt um innleiðingu hins svokallaða skandinavíska samningslíkans fyrir nokkrum árum síðan. Grundvallaratriði líkansins séu annars vegar að til lengri tíma litið sé ekki sjálfbært að laun hækki hraðar en framleiðni og hins vegar að launahækkanir umfram það leiði fyrst og fremst til verðbólgu. Kaupmáttur launa geti þannig ekki farið út fyrir þennan ramma.

Daði Már Kristófersson.
Fréttablaðið/GVA

„Nú hefur ekki gengið að innleiða þetta líkan á Ísland af ástæðum sem ég þekki ekki en við getum sagt að hugmyndafræðin byggi á því sama og hér er rætt um. Það er hætta á því að ef einn hópur er tekinn út fyrir og ef hækkanir eru langt umfram framleiðniaukningu að það leiði til höfrungahlaups, sem aftur leiðir til verðbólgu og að enginn verði betur settur þegar upp er staðið,“ segir Daði Már.

„Sértækar hækkanir einstakra hópa þurfa að vera hluti af heildarkröfugerð verkalýðshreyfingarinnar ef það á að skila sér – eins og tíðkast í skandinavíu – og ef forðast á höfrungahlaupið.“