Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu þrotabús WOW air um að Títan fjárfestingafélag, sem var móðurfélag flugfélagsins, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Dómurinn telur þrotabúið ekki hafa sýnt nægjanlega fram á að það eigi að svo stöddu lögvarða kröfu á hendur félaginu.

„Við fögnum að sjálfsögðu niðurstöðunni,“ segir Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri og eigandi WOW air, í samtali við Markaðinn.

„Það er algjörlega ljóst að ég, allir stjórnendur félagsins og stjórn unnum að heilindum í einu og öllu, allt fram á síðasta dag, við það að bjarga félaginu,“ bætir hann við.

Þrotabú WOW air, sem hæstaréttarlögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson stýra, krafðist þess í lok janúar síðastliðins að Títan fjárfestingafélag yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningargerðar sem fram fór hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu um miðjan mánuðinn.

Ágreiningurinn í málinu sneri þó ekki að umræddri árangurslausu gerð heldur fyrst og fremst að því hvort þrotabúið ætti lögvarða kröfu á hendur Títan.

Þannig byggðist krafa skiptastjóranna á því að tæplega 108 milljóna króna arðgreiðsla - sem Cargo Express innti af hendi til WOW air þann 6. febrúar í fyrra og flugfélagið greiddi í kjölfarið inn á reikning Títans - væri riftanleg ráðstöfun í skilningi laga um gjaldþrotaskipti og því ætti þrotabúið fjárkröfu á hendur Títan.

Flutningafélagið var selt WOW air um mitt ár 2018 og átti arðgreiðsla frá því að renna til Títans sem hluti af söluverðinu.

Þorsteinn Einarsson og Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjórar þrotabús WOW air.
Fréttablaðið/Ernir

Þrotabú WOW air hefur haldið því fram að með umræddri greiðslu WOW air til Títans hafi fyrrnefnda félagið greitt skuld við það síðarnefnda fyrr en eðlilegt hafi verið eða næstum þremur mánuðum fyrir umsaminn gjalddaga. Greiðslan hafi verið innt af hendi tæpum tveimur mánuðum áður en stjórn flugfélagsins leitaði gjaldþrotaskipta á búi félagsins og á þeim tíma þegar laust fé þess hafi verið gengið til þurrðar þannig að því hafi verið ófært að standa í skilum við lánardrottna sína.

Raunar hefur þrotabúið höfðað annað mál á hendur Títan til riftunar á fyrrnefndri greiðslu en það mál var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í lok febrúar síðastliðins.

Skúli segir hins vegar að það hafi verið skýrt í sínum huga að arðgreiðslan frá Cargo Express væri eign Títans.

Í málatilbúnaði Reimars Péturssonar, lögmanns Títans, er tekið fram í þessu sambandi að aldrei hafi neitt annað staðið til en að arðurinn færi til fjárfestingafélagsins. Vilji samningsaðila hafi verið skýr um það að allur arður upp að 150 milljónum króna yrði eign Títans.

Svo virðist sem hending ein hafi verið að greiðslan hafi farið um reikninga WOW air, því allt eins hafi mátt koma málum svo fyrir að hún yrði greidd beint til Títans.

Auk þess hafi dagsetningin sem þrotabúið horfi til, 30. apríl 2019, ekki verið eiginlegur gjalddagi skuldarinnar.

WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta 28. mars í fyrra.
Fréttablaðið/ Ernir

Í úrskurði héraðsdóms, sem kveðinn var upp í gær og Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að það sé frumskilyrði samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti að sá sem krefjist gjaldþrotaskipta eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara. Því lúti ágreiningur málsins að því hvort þrotabúið eigi slíka kröfu á hendur Títan.

Tekið er fram, eins og áður sagði, að þrotabú WOW air hafi með málshöfðun leitað úrlausnar dómstóla um riftanleika áðurnefndrar greiðslu.

„Þar sem niðurstaða dómstóla liggur ekki fyrir um það hvort riftun greiðslunnar nái fram að ganga þykir sóknaraðili [þrotabúið] ekki hafa sýnt nægjanlega fram á að hann eigi að svo stöddu lögvarða kröfu á hendur varnaraðila [Títan]. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila,“ segir í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur.

Var þrotabúinu jafnframt gert að greiða Títan fimm hundruð þúsund krónur í málskostnað.