Héraðsdómur Vesturlands hefur vísað frá dómi skaðabótakröfu Arnarlóns, félags í eigu Þórhalls Arnar Hinrikssonar, stjórnarformanns ALM verðbréfa, á hendur Dalabyggð vegna meintrar ólögmætrar riftunar sveitarfélagsins á samþykktu tilboði félagsins í fasteignir á Laugum í Sælingsdal.

Dómurinn tók ekki efnislega afstöðu til skaðabótakröfu Arnarlóns heldur féllst á frávísunarkröfu Dalabyggðar. Talið var að félaginu hefði borið að beina umræddri kröfu jafnframt að félaginu Dalagistingu sem er þinglýstur eigandi hluta þeirra fasteigna sem tilboð félagsins laut að, nánar tiltekið eignarinnar Laugar Hótel. Dalagisting er í meirihlutaeigu sveitarfélagsins.

„Með því að stefnandi beindi ekki framangreindri kröfu sinni jafnframt að Dalagistingu ehf. gætti hann ekki ákvæða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um samaðild eigenda þeirra fasteigna er tilboð stefnanda tók til,“ segir í niðurstöðukafla héraðsdóms.

Arnarlón krafðist þess aðallega að Dalabyggð yrði gert að greiða sér tæplega 16,9 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum vegna þess beina tjóns sem félagið hefði orðið fyrir vegna háttsemi sveitarfélagsins. Hins vegar var þess krafist til vara að Dalabyggð yrði dæmt til þess að greiða félaginu skaðabætur sem næmu óbættu tjóni vegna hagnaðarmissis sem félagið hefði orðið fyrir vegna riftunar sveitarfélagsins á samþykktu tilboði þess.

Félagið byggði kröfur sínar annars vegar á þeirri málsástæðu að bindandi samningur hefði komist á um kaup á umræddum eignum og hins vegar á þeirri málsástæðu að háttsemi sveitarfélagsins við samningsgerðina og eftirfarandi samningaviðræður hefðu ekki verið í góðri trú.

Félagið hefði þannig verið blekkt til þess að leggja út í umfangsmikinn kostnað og varið umtalsverðum tíma í samningsgerð sem sveitarfélagið hefði í raun aldrei ætlað að standa við.

Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti í lok árs 2017 tilboð Arnarlóns í eignirnar upp á samanlagt 460 milljónir króna en hugmyndir félagsins gengu meðal annars út á að efla rekstur hótels á svæðinu.

Illa gekk hins vegar að ljúka viðskiptunum og fór það svo að sveitarstjórnin sleit viðræðum við Arnarlón í apríl árið 2018 en hún sagðist ekki geta sætt sig við hvernig hluta fjármögnunar kaupanna væri háttað. Salan olli líka talsverðri ólgu innan sveitarfélagsins en sem dæmi skrifuðu yfir tvö hundruð íbúar undir ályktun þar sem seljenda­láni til félagsins var mótmælt.

Tilraunir Arnarlóns til að miðla málum, svo sem með breyttu tilboði, báru ekki árangur og voru eignirnar aftur settar á sölu upp úr miðju ári 2018. Eru þær enn óseldar.

Í fyrra krafðist lögmaður Arnarlóns þess að Dalabyggð greiddi félaginu um 13,6 milljóna króna skaðabætur, auk virðisaukaskatts, vegna beins tjóns sem félagið taldi að leitt hefði af meintum vanefndum sveitarfélagsins. Var þeirri kröfu hafnað af sveitarstjórninni.

Áður fyrr var rekinn grunnskóli með heimavist á Laugum en fyrir um tveimur áratugum var elsta hluta skólans breytt í hótel. Dalabyggð keypti fasteignir á svæðinu af ríkinu árið 2013 og auglýsti þær til sölu þremur árum síðar.