Kröfu um margfeldiskosningu á hluthafafundi Haga hefur verið hafnað en samkvæmt heimildum Markaðarins kom krafan frá félögum í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur sem á alls 4,3 prósenta hlut í smásölurisanum.

Í tilkynningu frá Högum til Kauphallarinnar er greint frá því að stjórn Haga hafi borist krafa um að beitt verði margfeldiskosningu til stjórnar félagsins sem fram fer á hluthafafundinum á föstudaginn. 

Samkvæmt lögum um hlutafélög skal krafa um margfeldiskosningu koma frá hluthöfum sem hafa yfir að ráða minnst 10 prósentum hlutafjár í félaginu. Tilskyldum hluta var ekki náð og verður því beitt meirihlutakosningu við stjórnarkjörið.

Eins og greint var frá fyrir helgi hefur, Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir og eiginmaður Ingibjargar Stefaníu, gefið kost á sér til setu í stjórn Haga. Hann er hins vegar ekki á lista tilnefningarnefndar. 

Þá er birtur endanlegur listi yfir frambjóðendur til stjórnar félagsins en framboðsfresturinn rann út á sunnudaginn. Síðasta föstudag var birtur listi yfir þá sem höfðu gefið kost á sér en einn frambjóðandi bættist við um helgina. Það er Sandra Hlíf Ocares sem er menntaður lögfræðingur og formaður tilnefninganefndar VÍS.

Eftirtaldir aðilar hafa hafa gefið kost á sér til setu í stjórn:

  1. Davíð Harðarson, fjármálastjóri Nordic Visitor
  2. Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Slippsins Akureyri
  3. Erna Gísladóttir, forstjóri og eigandi BL ehf.
  4. Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir
  5. Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands
  6. Kristján Óli Níels Sigmundsson, bifreiðastjóri og fjárfestir
  7. Sandra Hlíf Ocares, sjálfstætt starfandi ráðgjafi
  8. Stefán Árni Auðólfsson, lögmaður hjá LMB lögmönnum slf.