Króatar búa sig nú undir að taka upp evruna þann 1. janúar 2023, auk þess sem landið verður aðili að Shengen-samstarfinu. Króatíska kúnan, sem hefur verið gjaldmiðill landsins frá árinu 1994, verður þar með lögð niður. Hraðbönkum þar sem hægt er að fá greitt í kúnum hefur þegar verið fækkað á undanförnum mánuðum vegna áætlaðrar upptöku evrunnar.

Andrej Plenković, forsætisráðherra Króatíu, sagði að með upptöku evrunnar væri draumur að rætast. „Þetta hefur verið markmið okkar frá upphafi,“ hafði Le Monde eftir Boris Vujčić, seðlabankastjóra Króatíu. „Í okkar augum lék enginn vafi á því: Við erum evrópsk þjóð.“

Króatíska kúnan sem nú víkur fyrir evrunni.
Fréttablaðið/Getty

Samkvæmt greiningu Financial Times ætti upptaka evrunnar að hafa jákvæð áhrif á efnahag landsins þar sem rúmur helmingur af utanríkisverslun landsins, tveir þriðju erlendrar fjárfestingar og um sjötíu prósent ferðaþjónustunnar eru við evrusvæðið. Jafnframt eru um helmingur allra bankainnistæða í landinu nú þegar í evrum og um sextíu prósent allra lána.

Engu að síður hafa tilteknir stjórnarandstöðuhópar í Króatíu mótmælt upptöku nýs gjaldmiðils á þeim forsendum að kúnan sé hluti af þjóðarímynd landsins og staðfesting á fullveldi þess. Aðrir telja að upptaka evrunnar muni varpa ljósi á það hve fátæk Króatía er í samanburði við mörg önnur aðildarríki ESB. „Þetta mun vekja tilfinningu um fátækt og vesæld,“ sagði Ana Knežević, forseti króatísku neytendasamtakanna.

Christine Lagarde, seðlabankastjóri Evrópu, segir inngöngu Króata í evrusamstarfið vera „traustsyfirlýsingu á evrusvæðið“ og að Króatía muni hagnast á því að hafa evruna sem skjöld.

Plenković mun halda upp á upptöku evrunnar á nýársdag ásamt Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, með því að fara í göngutúr um götur höfuðborgarinnar Zagreb og kaupa kaffibolla með evrum.