Kristján Einarsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri tæknifyrirtækisins Treble Technologies sem þróar hugbúnað á sviði hljóðhermunar. Kristján mun stýra markaðsmálum og vinna að frekari vexti fyrirtækisins. Treble Technologies er íslenskt sprotafyrirtæki sem lauk nýverið 232 milljón króna fjármögnun og er í örum vexti um þessar mundir.

Kristján starfaði áður sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Origo. Þar sá hann um markaðsaðgerðir og viðburði, og leiddi nú síðast innleiðingu á CRM kerfinu HubSpot fyrir Origo. Kristján starfaði í markaðsmálum hjá Origo í 5 ár og spilaði meðal annars lykilhlutverk í mótun á vörumerkinu Origo þegar Nýherji sameinaðist við dótturfyrirtæki sín Applicon og TM Software.

Finnur Pind framkvæmdarstjóri Treble segist spenntur að fá öflugan aðila inn til að stýra markaðsmálunum og með inn í viðskiptaþróunina: „Við erum mjög spennt að fá Kristján til liðs við okkur og vitum að hann hefur verið að gera flotta hluti hjá Origo. Framundan eru mörg tækifæri fyrir Treble, þar sem tæknin okkar nýtist við lausn fjölbreyttra vandamála sem snúa að hljóði, og því mikilvægt fyrir okkur að fá réttan aðila í að stýra markaðsmálum hjá okkur og koma vörum okkar á kortið.“

Sjálfur segist Kristján vera spenntur fyrir framhaldinu: „Það er skemmtilegt að koma inn í fyrirtæki sem er hreinlega brautryðjandi á sínu sviði á heimsvísu. Það fer ekki á milli mála að það er mikill áhugi frá markaðnum á því sem Treble er að gera og fjölmörg tækifæri í boði. Þetta snýst núna að miklu leyti um að velja réttu tækifærin og pakka lausninni inn á sem bestan máta.“

Kristján er með BS gráðu í sálfræði og MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Treble Technologies þróar hugbúnaðarlausnir fyrir ýmsa geira til að greina og hanna hljóðvist og hljóðupplifanir. Byltingarkennd hljóðhermunartækni Treble er hornsteinn hugbúnaðarlausna fyrirtækisins og hefur fyrirtækið hafið samstarf við stór alþjóðleg fyrirtæki í byggingar-, hljóðtækni-, bílaiðnaðinum og heyrnartækjageiranum. Fyrsta vara Treble er ætluð byggingargeiranum og gerir hönnuðum kleift að taka upplýstar ákvarðanir um efnisval, form og fleira á grundvelli nákvæmrar hermunar og stafrænnar upplifunar af byggingamódelum.