Kristinn Harðar­son hefur verið ráðinn fram­kvæmda­stjóri fram­leiðslu hjá HS Orku. Kristinn starfaði áður sem for­stöðu­maður virkjana­reksturs hjá Orku Náttúrunnar en þar áður starfaði hann í 14 ár sem fram­kvæmda­stjóri hjá Alcoa bæði á Ís­landi og í Banda­ríkjunum. Fram kemur í til­kynningu að Kristinn muni stýra allri fram­leiðslu HS Orku í jarð­varma­virkjununum í Svarts­engi og á Reykja­nesi auk vatns­afls­virkjunarinnar á Brú í Tungu­fljóti. Þá er hafin stækkun á virkjuninni á Reykja­nesi um 30 MW sem á­ætlað er að komi í rekstur í lok árs 2022.

„Það er mikið gleði­efni að fá Kristinn til liðs við HS Orku. Hann er gríðar­lega reynslu­mikill stjórnandi með víð­feðma þekkingu á rekstri. Hann kemur með ferska sýn á verk­efnin og ég er sann­færður um að hann mun reynast okkur öflugur liðs­styrkur,“ segir Tómas Már Sigurðs­son, for­stjóri HS Orku, í til­kynningu.

Kristinn er með MBA gráðu frá Há­skóla Ís­lands, meistara­gráðu í rekstrar­verk­fræði frá DTU í Dan­mörku auk B.Sc. gráðu í iðnaðar­tækni­fræði frá Tækni­skóla Ís­lands. Kristinn er kvæntur Hildi Briem og saman eiga þau þrjú börn.

HS Orka hefur verið leiðandi í fram­leiðslu á endur­nýjan­legri orku í 45 ár. Hjá fyrir­tækinu starfar öflugur hópur sér­fræðinga með mikla reynslu á sínu sviði. Fyrir­tækið á og rekur tvær jarð­varma­virkjanir, Orku­verið Svarts­engi og Reykja­nes­virkjun auk einnar vatns­afls­virkjunar í Brúar­á í Tungu­fljóti. Fyrir­tækið er að hefja vinnu við stækkun Reykja­nes­virkjunar um 30 MW.